143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

efling skógræktar sem atvinnuvegar.

211. mál
[17:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni framsækið og áhugavert mál hjá hv. flutningsmönnum. Umræðan hefur verið prýðileg í dag. Það er augljóst að þeir sem hafa mestan áhuga á umhverfismálum og náttúruvernd hafa ákveðið að taka þátt í umræðunni, eða kannski að þeir sem hafa mest talað um umhverfisvernd og náttúruvernd láta ekki sjá sig.

Hér er um að ræða nokkuð mikið umhverfismál. Það er búið að leggja vinnu í þessa þingsályktunartillögu. Að stærstum hluta líst mér mjög vel á hana. Sérstaklega finnst mér ánægjulegt að sjá að hv. flutningsmenn taka sérstaklega upp hagræðingarhugmyndir sem komu fram í hagræðingarhópnum og þeir leggja ekki síst upp með, ef maður skoðar greinargerðina, að hægt sé að ná háleitum markmiðum ásamt því að ná aukinni hagræðingu eins og í þessu tilfelli hjá Skógrækt ríkisins, Landgræðslunni og í landshlutaverkefnum í skógrækt. Hér er lagt til að þetta verði allt saman í einni stjórnsýslueiningu sem er auðvitað mjög gott. Að semja frumvarp að nýjum samræmdum lögum um skógrækt og landgræðslu er eitthvað sem manni finnst svo sjálfsagt að það ætti að vera löngu búið að því, en svo er ekki og þess vegna er þessi þingsályktunartillaga væntanlega komin fram, meðal annars, eða það er eitt af markmiðum hennar.

Hv. þingmenn Jón Gunnarsson og hv. þm. Haraldur Benediktsson, hafa farið hér vel yfir marga þætti þessa máls og þekkja það augljóslega mjög vel. Mér líst vel á þetta. Ég verð að vísu að viðurkenna að mér fannst glitta í útgjöld í ræðu annars hv. þingmannsins, en við getum náð miklu af þessu fram án þess að fara út í stórfelld útgjöld. Í rauninni er hér hreinlega lagt upp með að hægt sé að spara til að leggja meiri áherslu á það sem máli skiptir, það er að rækta skóg á Íslandi.

Virðulegi forseti. Eitt af því sem gerir landið okkar fallegt og gefur því mikið aðdráttarafl og gerir að verkum að það er mjög vinsælt meðal erlendra ferðamanna og auðvitað innlendra líka er að hér er ekki skógur. Það er ákveðin sérstaða í því að við Íslendingar tókum okkur til og eyddum skógi. Menn geta deilt um ástæður þess, oft er sauðkindinni kennt um, en ég hef heyrt fornleifafræðinga sem hafa rannsakað þetta benda á þá staðreynd að þó svo að landnemarnir hafi verið með svipaðar reglur um grisjun skógar og í Noregi var skógurinn okkar þess eðlis að hann þoldi hana ekki jafn vel. Sömuleiðis, sem ég vissi nú ekki, var að þó svo að mýrarrauðinn sem hér var hafi hentað vel til framleiðslu á járni þurfti, ef ég man rétt, allt að tíu sinnum meira af kolum til að ná sambærilegu magni og í þeim löndum sem við komum frá, sérstaklega Noregi.

Það er kannski aukaatriði af hverju við eyddum hér skógi, en ég held hins vegar að það skipti máli og ég veit að hv. flutningsmenn eru örugglega mér sammála að göngum samt þannig fram að við sköðum ekki þá náttúrufegurð sem við höfum núna, sem er m.a. fólgin í því að við höfum ekki skóg. Við getum hins vegar andað rólega því ég held að það sé innan við 0,5%, a.m.k. innan við 1% af landi á Íslandi þakið skógi. Við þurfum að ganga ansi hart fram til þess að hafa áhyggjur af því að hér sé allt þakið skógi, það er ekki alveg að detta inn jafnvel þótt þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt.

Ég vil nota tækifærið, virðulegi forseti, og þakka hv. þingmönnum fyrir vandaða og góða þingsályktunartillögu sem er búið að leggja mikla vinnu í. Ég treysti því að tillaga hv. þingmanna fái góða afgreiðslu og vandaða umfjöllun í viðkomandi nefnd þingsins.