143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

niðurskurðartillögur fjárlaganefndar.

[14:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason getur ekki byrjað á því að gefa sér einhverjar forsendur og spyrja svo hvernig þær fari heim og saman við stefnu ríkisstjórnarinnar ef þær forsendur sem hv. þingmaður gefur sér eru ekki réttar. Þessi ríkisstjórn hefur að sjálfsögðu þurft að fást við þann vanda sem var við að etja í ríkisfjármálunum og birtist meðal annars í því að halli á rekstri ríkisins þetta árið verður margfalt meiri en hann átti að vera samkvæmt síðustu fjárlögum síðustu ríkisstjórnar. Það hefur þýtt að víða hefur þurft að leita fanga við að spara fjármagn. Þar hafa menn sérstaklega hugað að því að snúa við þeirri neikvæðu þróun sem átti sér stað meira og minna allt síðasta kjörtímabil, þ.e. að niðurskurðurinn á því tímabili annars vegar skaðaði stórlega heilbrigðiskerfið en dró líka allan þrótt úr atvinnulífinu, efnahagslífinu og samfélaginu öllu. Því þurfti að snúa við.

Annað sem hefur verið haft að leiðarljósi er að standa vörð um grunnþjónustuna. Enda þótt stór hluti og stærstur hluti ríkisútgjalda fari til heilbrigðismála eða félagsmála hefur engu að síður verið hugað alveg sérstaklega að því að standa vörð um þá málaflokka. Þar sem menn hafa velt fyrir sér sparnaði, t.d. í bótakerfinu, hefur eingöngu verið litið til þeirra sem hafa hæstar tekjur. Menn hafa ekki talað um að draga úr bótum til þeirra sem hafa lægri tekjur.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi, barnabætur, var jú umræða um það. Ég geri ekki ráð fyrir að nein skerðing verði á barnabótum þegar niðurstaða fjárlagavinnunnar liggur fyrir. Þar með stendur þessi ríkisstjórn vörð um gríðarlega aukningu barnabóta sem verða þá miklu hærri en þær voru að meðaltali á síðasta kjörtímabili þegar hv. þingmaður átti sæti í ríkisstjórn.