143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

niðurskurðartillögur fjárlaganefndar.

[14:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við heyrum hér mikil tíðindi frá hæstv. forsætisráðherra. Hann er að draga til baka það sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fræddi okkur um í morgunútvarpinu í gærmorgun að væri samþykkt stefna ríkisstjórnarinnar. Hún vísaði til þess aftur og aftur og aftur að það sem hún væri að boða væri samþykkt stefna ríkisstjórnarinnar. Hún vísaði til þess að þetta hefði verið rætt á ríkisstjórnarfundi á föstudag og það voru kynntar í fjárlaganefnd hugmyndir í þessa veru um helgina.

Það er því algjörlega ótrúlegt að sjá að forsætisráðherra hefur ekki einu sinni döngun í sér til þess að verja sinn duglega þingmann sem gengur fram fyrir skjöldu til að tala fyrir þessari hörmulegu stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hann leiðir. Hv. þingmaður fórnar sér í skítverkin fyrir hæstv. forsætisráðherra sem kemur hér núna og afneitar þingmanninum, formanni fjárlaganefndar.

Það er búið að boða ákveðna hluti. Ef hæstv. fjármálaráðherra telur að ég sé að gefa mér einhverjar forsendur er við hann að sakast. Hann fékk aukatíma upp á margar vikur til að undirbúa fjárlög. Þess sér lítinn stað núna þegar við bíðum enn eftir að sjá hvaða mynd fjárlögin taka á sig. Búið er að boða nýjan bankaskatt sem (Forseti hringir.) ráðherrann hefur ekki hugmynd um hvernig hann ætlar að útfæra (Forseti hringir.) og það eru nokkrir dagar eftir til jóla. Ef einhver (Forseti hringir.) er ekki með klárar forsendur er það vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki skilað þinginu neinum forsendum.