143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

framlög til þróunaraðstoðar.

[14:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það verður að viðurkennast að stefna ríkisstjórnarinnar fyrir 2. umr. fjárlaga er nokkuð óljós.

Mig langar að inna hæstv. utanríkisráðherra eftir því sem undir hann heyrir. Nú hefur komið fram í fjölmiðlum að ætlunin sé ekki aðeins sú, eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sjálfu, að auka ekki við þróunarsamvinnu eins og þingsályktun um þróunarsamvinnu gerir ráð fyrir heldur að halda henni í raun og veru í sama horfi og áður. Þær fréttir bárust um helgina og í útvarpsviðtali að ætlunin væri að skera niður hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands milli umræðna.

Ég verð að segja að mér finnst þetta óhugnanleg tíðindi því að við verðum að átta okkur á því að þegar við horfum á okkar stöðu, sem vissulega hefur verið þröng og erfið undanfarin ár miðað við það sem við höfum átt að venjast, þá erum við eigi að síður í hópi 15–20 ríkustu þjóða í heimi. Hvaða þjóðir höfum við verið að styðja? Malaví, Mósambík og Úganda í gegnum þróunarsamvinnustofnunina, ríki sem raðast í sæti 160–180 á heimslistann yfir ríkidæmi þjóða.

Í Malaví höfum við hjálpað í gegnum þróunarsamvinnustofnunina að byggja upp heilbrigðisþjónustu og fæðingarþjónustu þar sem 16 konur deyja á hverjum degi vegna erfiðleika í fæðingu. Þar hefur íslensk þróunaraðstoð komið að gagni við að draga úr því.

Í Mósambík þar sem skólaganga fólks yfir 25 ára aldri er sú stysta í heimi hefur Ísland stutt við fullorðinsfræðslu.

Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra hvort það geti virkilega verið ætlunin að skera niður framlög til þróunarsvæða milli umræðna í fjárlögum, hvort við eigum að trúa því að við séum bara að hverfa frá því að reyna að ná upp í þau markmið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett og við erum enn þá langt frá, hvort hæstv. utanríkisráðherra styðji slíkar ráðstafanir ef þær verða lagðar til.