143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

framlög til þróunaraðstoðar.

[14:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég get þó alla vega þakkað hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýr svör. Planið er sem sagt að skerða þróunarsamvinnu, þróunaraðstoð við fátækustu ríki heims. Planið er að fara ekki í aukna tekjuöflun, til að mynda á útgerðarmenn. Við þekkjum umræðuna sem við áttum hérna um hið sérstaka veiðigjald og þann tekjumissi sem ríkissjóður varð fyrir þegar því var breytt í sumar. Nei, við ætlum að sækja peningana til Malaví, Mósambík og Úganda.

Ég verð að segja að mér finnst ekki sérstaklega mikil reisn yfir þeim tillögum í fjárlagagerðinni. Ég trúi því varla fyrr en ég tek á ef ég á eftir að sjá hæstv. utanríkisráðherra styðja þessa tillögu. Þetta snýst ekkert um hægri eða vinstri pólitík. Við getum bara litið til nágrannaþjóða okkar þar sem eru ríkisstjórnir sem spanna allt litrófið, þær hafa ekki skert þessa hluti í efnahagskreppunni og við ættum að taka þær okkur til fyrirmyndar hér á Íslandi.