143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

samvinna við sveitarfélögin um skuldaleiðréttingar.

[14:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að það séu uppi spurningar í þinginu á milli umræðna um fjárlagafrumvarpið vegna þess að í farvatninu eru breytingar á fjárlagafrumvarpinu fyrir 2. umr. Það er ekkert óhefðbundið við samskipti ríkisstjórnarinnar og nefndarinnar, þ.e. að nefndin hefur fengið til sín frá fjármálaráðherra eftir kynningu í ríkisstjórninni tillögur til breytinga sem nefndin er beðin að taka til skoðunar og hún hefur verið að vinna með þær breytingar undanfarna daga. Síðast í dag átti ég í samskiptum við fulltrúa fjárlaganefndar til þess að unnt sé að ljúka yfirferð yfir breytingartillögur, kynna þær í nefndinni og í framhaldinu taka umræðu hér í þinginu um þær.

Varðandi samráð við sveitarfélögin er rétt að breytingar á séreignarsparnaðarfyrirkomulaginu hafa ekki verið sérstaklega ræddar við sveitarfélögin en þau hafa á ýmsan hátt notið góðs af breytingum sem gerðar hafa verið á lögum undanfarin ár. Til dæmis hefur heimildin til þess að taka út uppsafnaðan séreignarsparnað af sjóði skilað sveitarfélögunum um 10 milljarða auknum tekjum. Með sama hætti mun aukning á bankaskatti skila sveitarfélögunum um hálfum milljarði í nýjar tekjur og þetta verður maður allt að taka saman þegar maður er að velta fyrir sér áhrifum á sveitarfélögin af þeim breytingum sem eru í farvatninu. Þetta mun fyrst liggja fyrir þegar frumvörp um þessi efni hafa komið fram hér í þinginu.

Það er von að spurt sé hvenær þau muni líta dagsins ljós. Ég lít svo á að þetta sé á lokastigum fyrir 2. umr. í fjárlaganefndinni. Tekjuöflunarfrumvörpin eru líka að klárast fyrir næstu umræðu í þinginu. Að öðru leyti sýnist mér að málin hafi ágætan tíma fyrir framan sig vegna þess að margar af þeim aðgerðum sem við ætlum að grípa til í skuldamálum koma til framkvæmda um mitt næsta ár.