143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

kæruferli fyrndra kynferðisbrota.

[14:26]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir en það kemur fram í fréttinni að ástæðan fyrir þessari breytingu á verklagsreglum sé í kjölfar holskeflu nýrra mála sem hafa komið upp á þessu ári og þá ekki síst á fyrri hluta ársins. Fráfarandi ríkisstjórn samþykkti upp á krónu aðgerðaáætlun sem fyrir hana var lögð til að mæta þeirri holskeflu nýrra kæra vegna kynferðisbrota á þessu ári. Þetta voru fjármunir sem áttu meðal annars að fara til saksóknara, til lögreglu og allra þeirra sem málið varðar til að tryggja að þessi mál færu hratt og örugglega í gegn. Þetta var tekið af svokölluðum ófyrirséðum lið vegna þess að við litum svo á að um neyðarástand væri að ræða.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra, og hún kannar það þá á sama tíma og hún fer yfir þetta, hvað hafi orðið um þá fjármuni vegna þess að eftir mínum upplýsingum hafa þeir skilað sér en það er þá spurning hvort einhver önnur ástæða sé fyrir því að menn hafa engu að síður ekki getað tekið á þessari holskeflu með þeim nýju fjármunum sem settir voru inn í kerfið allt.