143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða framhaldið af því sem var komið inn á áðan þar sem haft var eftir hæstv. fjármálaráðherra að til greina kæmi að falla frá lækkun barnabóta. Breytingartillögurnar voru ræddar á ríkisstjórnarfundi í morgun þannig að mér finnst ástæða til að vekja á athygli á þessu: Hvar er málið statt?

Ríkisstjórnin samþykkti tillögur sínar og afhenti þær fjárlaganefnd á föstudaginn. Þar voru þær kynntar, munnlega að vísu, og átti að koma kjöt á beinin, eins og sagt var, seinni part þess dags en það gerðist ekki fyrr en á mánudag. Nú er búið að fresta fundum fjárlaganefndar. Í dag kemur fram að ríkisstjórnin sé aftur komin með málið inn á sitt borð. Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Er málið ekki í höndum þingsins?

Þegar búið er að afhenda tillögur til fjárlaganefndar og Alþingis er afar sérstakt, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að ríkisstjórnin skuli ætla að taka þær til sín aftur og breyta þeim.