143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. forseta er nokkur vorkunn vegna þess að það að vera með forsætisráðherra sem stýrir umræðum um stjórnmál eins og hann gerir hér, hefur forgöngu um að gera lítið úr öðrum stjórnmálamönnum og því sem þeir segja í ræðustóli með því að gefa í skyn að þeir fari endalaust aftur með rangt mál er fyrir neðan allar hellur.

Hæstv. fjármálaráðherra kom inn á það í fjölmiðlaviðtali á sunnudaginn að lækka ætti tillögur til vaxtabóta og barnabóta. — Hæstv. fjármálaráðherra. — Fer hæstv. fjármálaráðherra með rangt mál?

Virðulegi forseti. Formaður fjárlaganefndar sagði nákvæmlega það sama um þróunaraðstoðina, barnabæturnar og vaxtabæturnar í löngu viðtali sem ég sat með henni í gærmorgun. Hún sagði það stefnu ríkisstjórnarinnar og þetta var rætt á föstudaginn. Og að sitja svo hér undir því aftur og aftur og aftur að við stjórnmálamenn, aðrir en hæstv. forsætisráðherra, förum sýknt og heilagt með rangt mál er óþolandi. (Forseti hringir.) Ég fer fram á að hæstv. forseti grípi í taumana og kenni mönnum mannasiði og kenni (Forseti hringir.) mönnum umburðarlyndi og þolinmæði fyrir því að mæta gagnrýnum skoðunum.