143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé að gera áfram athugasemdir við framgang þessa máls, hvernig það er að fara hér í höndum forsætisráðherra. Hann gerir nú eins og hann gerir svo oft, hann sakar aðra í stjórnmálum um lygar, ósannindi, um að fara með rangt mál. Líkt og oftast hefur hann ekkert fyrir sér í því. Hann er gerður heimaskítsmát í þetta skiptið eins og öll önnur. Í skemmtiþætti Gísla Marteins á sunnudag ræddi fjármálaráðherra þessar tillögur, hann ræddi þær og formaður fjárlaganefndar ræddi þær í löngu viðtali í gærmorgun. Ef við getum ekki treyst orðum þessara fulltrúa er illt í efni og ég verð að biðja forseta um að gera tvennt: Hafa stjórn á stjórnarmeirihlutanum í vinnubrögðum hér því að verkleysi þessarar ríkisstjórnar er orðið slíkt að það fer í sögubækurnar.

Og hitt: Reyna að halda aftur af álygum forustumanna ríkisstjórnarinnar á aðra forustumenn í stjórnmálum.