143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:54]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að spyrja að því nú þegar við erum að hefja 2. umr. um fjáraukalögin, eftir það sem á undan er gengið, hvort hæstv. forsætisráðherra hafi blessað það sem verður lagt fram og er til umræðu hér á eftir, hvort hæstv. forsætisráðherra hafi samþykkt framsögu meiri hluta nefndarinnar. [Hlátur í þingsal.] Eigum við von á því að fá hingað inn tillögur frá forsætisráðherra sem breyta því sem við erum að fara að fjalla um?

Við höfum vandað okkur við undirbúninginn. Ég var að vísu fjarverandi þangað til seint í gærkvöldi. Við fengum minnihlutaálitið fyrir nokkrum mínútum og eigum að fara í heils dags umræðu um fjáraukalögin sem eru gríðarlega mikilvæg og við þurfum að vanda okkur að ræða um. Síðan fáum við að heyra, hæstv. forseti, ýmsar athugasemdir um að engin ástæða sé til að taka mark á ákveðnum þingmönnum, við þurfum ekkert að ræða skoðanir þeirra eða yfirlýsingar í útvarpi eða neitt slíkt.

Á hverju eigum við að byggja umræðuna hér á eftir?