143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Einstaka sinnum kemur það upp að þeir sem eru ósammála manni í pólitík gera sér far um að misskilja orð manns og jafnvel snúa út úr. Ég ætla þó hv. þm. Helga Hjörvar alls ekki slíkt. Ég sagði áðan að það væri jákvætt, ekki satt, ef menn sæju að sér í pólitík. Erum við ekki öll sammála um það? Jú, ég held það, en ég nefndi svo í kjölfarið að hæstv. forsætisráðherra hefði útskýrt mál sitt, að mér hefði fundist, mjög skilmerkilega og að ekkert hefði átt að misskiljast.

Ég veit ekki alveg yfir hverju stjórnarandstaðan er að kvarta. Það er eitt sem vekur mér smáóhug, verð ég að segja, og það er þetta virðingarleysi gagnvart þinginu sem mér fannst til dæmis koma fram í orðum hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur þar sem hún segir að ef ríkisstjórnin segi eitthvað sé það bara heilagt mál og það eigi ekki hljóta hina lýðræðislegu og málefnalegu umræðu … (Gripið fram í: Þú ert að snúa við.) Jú, jú, nei, ég er ekki að snúa við. Hún sagði nefnilega mjög skýrt: (Forseti hringir.) Ber ríkisstjórnin ekki þá virðingu að öllu sem hún segir sé bara fylgt skilyrðislaust? (Forseti hringir.)

Ég minni hv. þingmenn á að þeir samþykktu þingsályktunartillögu um að (Forseti hringir.) styrkja þingið á síðasta kjörtímabili og við eigum að standa við hana.