143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er rétt að þetta er dálítið kostuleg umræða; og ég vil ræða starfið í fjárlaganefnd. Á hvers höndum er fjárlagafrumvarpið þessa dagana? Hv. formaður fjárlaganefndar hefur ítrekað lýst því yfir að ljóst sé að fjárlagafrumvarpið og fjárveitingavaldið sé á hendi Alþingis. Nú heyrum við það dag eftir dag að ríkisstjórnin fundar um þetta og svo fundar hún aftur og svo er í fréttum — ég heyrði nú ekki fréttirnar vegna þess að ég var að hlusta á þá félaga úr Bjartri framtíð syngja hér í ágætum málsverði sem við áttum þingmenn, jólamálsverði — að nú hafi ríkisstjórnin aftur fundað og enn eigi að koma aðrar breytingartillögur. En ég spyr: Hver fer með fjárveitingavaldið í þessu landi? Er það Alþingi? Eða er það ríkisstjórnin sem ákveður eitthvað á fundum sínum fyrst á föstudegi og svo annað á þriðjudegi af því að þeir misskildu hvað hver hefði sagt yfir helgina?