143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er fullkomlega eðlilegt að menn vilji ræða hér áður en 2. umr. um fjárlagafrumvarp hefst hvaða staða sé uppi varðandi undirbúning að fjárlagafrumvarpinu, einfaldlega vegna þess að fjáraukalagafrumvarp er breyting á fjárlögum yfirstandandi árs og það hvaða úrlausn einstök viðfangsefni fá þar getur skipt máli fyrir framhaldið. Þess vegna er hárrétt hjá forseta að amast ekki við því þótt þessi staða sé hér rædd.

Reyndar hefur það skilað árangri eins og kom fram áðan. Ekki varð betur heyrt en að forsætisráðherra hefði slegið af, í svari við óundirbúinni fyrirspurn, áform sem bæði fjármálaráðherra og formaður fjárlaganefndar ræddu sem ákvarðanir og vörðu um og eftir helgina. Það eru staðreyndir sem við öll hlustuðum á þannig að hæstv. forsætisráðherra kemst ekki langt með að fara að breyta því í umfjöllun um einhverjar vangaveltur eða hugmyndir.

Ég er í hópi þeirra sem var djúpt hryggur þegar ég heyrði af þeim áformum að það ætti að niðurlægja íslensku þjóðina með því að stilla því upp sem vali hvort við gerðum betur við Landspítalann eða greiddum barnabætur, (Forseti hringir.) vaxtabætur og framlög í þróunaraðstoð. Ég fagna því þar af leiðandi að ríkisstjórnin er komin á undanhald með þetta og yrði enn glaðari (Forseti hringir.) ef áformin um að skerða vaxtabætur og þróunaraðstoð yrðu slegin af líka.