143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Nú hefst 2. umr. fjáraukalaga og því ber að fagna því að eins og fram hefur komið hefur orðið nokkur dráttur hér á framlagningu frumvarpsins og þar af leiðandi frestaðist umræðan. Það kemur fyrst og fremst til af því að alþingiskosningar voru í vor og við tók ný ríkisstjórn sem að sjálfsögðu þarf að skipta um kúrs miðað við verk og störf hinnar einu tæru hreinu vinstri stjórnar sem starfaði hér á síðasta kjörtímabili.

Fjáraukalögin eru endurskoðuð á forsendum fjárlaga. Fjallað er um fjáraukalögin í V. kafla laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Þar kemur fram að valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þurfi til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skuli leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga sem við ræðum hér í dag. Heimilda fyrir fjárráðstöfunum af þessu tagi, sem grípa þarf til eftir samþykkt fjáraukalaga, skuli leitað í lokafjárlögum. Öðrum óskum um breyttar heimildir til fjárráðstafana skuli jafnan vísað til ákvörðunar Alþingis í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár.

Því er mjög æskilegt að fjáraukalögin fyrir árið 2013 verði afgreidd hér á undan fjárlögum fyrir árið 2014 þannig að hægt sé að loka því ári sem nú er að líða.

Við í meiri hluta fjárlaganefndar höfum lagt fram fjögur þingskjöl með breytingartillögum og nefndaráliti á. Þau eru nr. 317, 318, 319 og 320 og hvet ég þingmenn og alla aðra sem með þessari umræðu fylgjast til að kynna sér það sem þar kemur fram. Þar er þó nokkrar breytingar að finna.

Þá förum við aðeins aftur til fortíðar vegna þess að þessi umræða byggist á því að loka árinu 2013. Hér ríkti mikil bjartsýni í fjárlagagerðinni hjá fyrri ríkisstjórn því að í fjárlögum fyrir árið 2013 var áætlað að hallinn yrði 3,7 milljarðar. Ekki var lagt af stað með það í síðustu fjárlögum að skila ríkissjóði í plús eins og hið metnaðarfulla markmið núverandi ríkisstjórnar er, heldur var lagt af stað með það að hallinn yrði 3,7 milljarðar.

Nú hefur komið í ljós við endurskoðaða áætlun að þegar fjáraukalögin voru lögð fram hér í þinginu þá benti allt til þess að hallinn yrði 25,5 milljarðar. Það munar rúmum 20 milljörðum á áætlun fyrri ríkisstjórnar og rauntölum þegar frumvarpið er lagt fram hér í þinginu. Líklega stafar þetta fyrst og fremst af því að sú tekjuöflun sem gert var ráð fyrir, svo sem sala á hlut ríkisins í bönkunum, gekk ekki eftir auk margra annarra bjartsýnisþátta sem birtust í hinni svokölluðu fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Nú hefur komið í ljós að hún var algjörlega óraunhæf en notuð raunverulega sem ástæða fyrir því að fara inn í mikið og kostnaðarsamt útgjaldaár fyrir landsmenn því að áhrifa kosningaloforða Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gætir enn í fjárlagavinnunni. Farið var af stað með verkefni víða um land á grundvelli þessarar fjárfestingaráætlunar.

Í fjárlögum fyrir árið 2014 hefur birst það markmið núverandi ríkisstjórnar að vinda ofan af þeirri sýn sem Samfylkingin og Vinstri grænir höfðu á síðasta kjörtímabili um það að (Gripið fram í.) fara í ýmis verkefni til að koma vel fyrir á kosningaári. Það er vel.

Það er því ljóst, eins og ég hef farið yfir, að himinn og haf var á milli áætlunarinnar og raunveruleikans þegar fjáraukalögin komu hér fram. En það er margt jákvætt að gerast. Eins og ég fór yfir áðan voru kosningar í lok apríl, ný ríkisstjórn er tekin við með nýjar áherslur og nú þegar þetta frumvarp er að koma endurskoðað hér í 2. umr. bendir allt til örlítils afkomubata. Væntingar standa til þess að hagvöxtur taki enn frekar við sér eins og nýjustu spár sýna, taki það vel við sér í lok þessa árs að í stað þess að í fjárlagafrumvarpinu væri gert ráð fyrir hagvexti upp á 2,7%, séu vísbendingar um að hagvöxtur fari nokkuð yfir 3%. Því ber að sjálfsögðu að fagna að bjartsýnisvísitalan sé að stíga eftir að ný stjórnvöld tóku við.

Við vinnslu frumvarpsins og í meðförum þingsins eru horfur aftur endurmetnar og nú í vinnu fjárlaganefndar, á meðan fjáraukalagafrumvarpið var til vinnslu, kom fram nýtt endurmat. Þær gleðilegu fréttir er að færa úr þeirri vinnu að sýnt er fram á lækkun á heildarútgjöldum upp á 1,9 milljarða. Gleðilegasti hlutinn er hins vegar sá að tekjuaukning samkvæmt frumvarpinu er 5,3 milljarðar og má aðallega rekja það til aukinna skatttekna ríkisins, þá aðallega virðisaukaskattstekja ríkisins, sem sýnir að hér er allt að fara af stað og neysluskattar eru að skila sér enn frekar til ríkisins en gert var ráð fyrir. Því ber að fagna, það er ávísun á að fólk er bjartsýnna og farið að fjárfesta meira og kaupa frekar inn ef svo má segja því að, eins og allir vita, er virðisaukaskatturinn neysluskattur.

Þegar upp er staðið gæti afkoman því orðið neikvæð um 20 milljarða í stað 25,5 milljarða. Þó liggur heildarútkoma ársins ekki fyrir fyrr en í ríkisreikningi en hann verður gefinn út um mitt næsta ár.

Ég vek athygli á því — og ég bið þingmenn um að gæta mikillar bjartsýni — að ýmsir reikningslegir liðir á gjaldahlið fjárlaga koma ekki til endurmats í frumvarpi þessu né til lokaafgreiðslu hér. Þar má sérstaklega nefna lífeyrisskuldbindingar og afskriftir skattkrafna. Endanlegt uppgjör á þessum liðum kemur ekki til með að liggja fyrir fyrr en í ríkisreikningi og hugsanlegt er að útkoman verði önnur en nú er gert ráð fyrir. Ég vek einnig athygli á því að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir 7,5 milljarða kr. lækkun vaxtagjalda frá fjárlögunum skýrast 6,5 milljarðar kr. af lækkuninni af því að skilmálum skuldabréfs, sem gefið var út til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabanka Íslands, var ekki breytt. Í raun og veru lækkar fjármagnskostnaður ríkisins ekki heldur er hluti hans færður beint á eigið fé í staðinn fyrir að færa hann í gegnum rekstrarreikning. Fjárhagsstaða ríkisins er því ekki að batna sem skyldi sem nemur minni vaxtakostnaði.

Nefndin hefur haft frumvarpið til umfjöllunar frá 28. nóvember sl. og hefur fengið á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins ásamt fulltrúa Ríkisendurskoðunar til að fara yfir helstu þætti þess. Þá hefur nefndin leitað skýringa á einstökum gjaldatilefnum með því að fá fulltrúa allra ráðuneyta á fund nefndarinnar. Einnig hefur nefndin yfirfarið þau erindi sem henni hafa borist í fjáraukalagavinnunni. Meiri hlutinn gerir breytingartillögur við frumvarpið sem samtals nema 1.907 millj. kr. til lækkunar gjalda og 3.908 millj. kr. til hækkunar tekna á rekstrargrunni.

Áhrif breytinganna á frumvarpið á rekstrargrunni koma fram í töflu sem er í þingskjalinu, í nefndarálitinu, á fyrstu síðu sem er að finna á þskj. 317.

Nú er áætlað að innheimta tekna skili 5.300 millj. kr. hærri tekjum en gert var ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu. Meginskýringin liggur í heldur betri innheimtu á seinni hluta ársins. Þannig hækkar tekjuáætlun vegna fjármagnstekjuskatts, virðisaukaskatts og tekjuskatts lögaðila samtals um 5,9 milljarða. Á móti kemur lægri innheimta vörugjalda og lækkun vaxtatekna ríkissjóðs. Á heildina litið gera breytingartillögur nefndarinnar ráð fyrir um 5,8 milljörðum kr. hagstæðari heildarjöfnuði en gert er ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu. Það er gleðiefni og gleðitíðindi.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nær fjórðungi allra gjaldaliða í fjárlögum. Eru þá ekki meðtaldar breytingar sem verða vegna sameiningar stofnana, flutnings þeirra á milli ráðuneyta eða millifærslu af lið vegna ófyrirséðra útgjalda. Þessi fjöldi liða bendir til þess að fyrrgreind skilgreining, sem ég las í upphafi ræðu minnar, á fjáraukalögum sé túlkuð of rúmt og um árabil hefur tíðkast að samþykkja tilefni í fjáraukalögum sem þó geta hvorki talist óvænt né ófyrirséð. Meiri hlutinn telur að hér þurfi að gera bragarbót og bendir á að nú er í undirbúningi nýtt frumvarp til laga um opinber fjármál þar sem ætlunin er að bæta úr ýmsum annmörkum að þessu leyti. Auk lagabreytinga telur nefndin að viðhorfsbreytinga sé þörf þannig að bæði ráðherrar og Alþingi vinni stöðugt að því að draga úr vægi fjáraukalaga. Nokkur árangur hefur náðst á þessu sviði á síðastliðnum árum eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu. Þess ber og að geta að það er sérlega mikilvægt að draga úr áhrifum og notkun fjáraukalaga þegar farið var inn með það á síðasta kjörtímabili að setja varúðarfjárhagslið inn í fjárlagafrumvarpið sjálft á bilinu 5–6 milljarðar þannig að þarna hefur þá ríkisstjórnin raunverulega úr þremur þáttum að spila; fjárlögum og fjáraukalögum auk hins svokallaða potts sem á að vera til staðar fyrir óvænt útgjöld.

Þessu verðum við þingmenn að breyta að mínu mati til að meiri festa skapist í fjárlagagerðinni og þá er líka betur uppi á borðinu hvar verið er að nota skattfé landsmanna. Eins og ég hef farið yfir áður er það mikið vald sem Alþingi er falið, að fara með fjárveitingavaldið, að ráðstafa skatttekjum borgaranna á sem hagstæðastan hátt, og því er mikilvægt að forgangsraða í rétta veru.

Nokkuð ber á því í frumvarpinu að lagðar séu til millifærslur milli verkefna vegna þess að forsendur hafi breyst frá því að fjárlög voru samþykkt. Þar vega millifærslur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu langþyngst. Lagt er til að ónýttar fjárheimildir, m.a. vegna verkefnisins Nám er vinnandi vegur, falli niður en þess í stað er gerð tillaga um að ráðstafa samsvarandi fjárhæðum til undirbúnings endurskipulagningar, svo sem vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Ekki er ætlunin að nýta þær heimildir fyrr en á næsta ári. Þetta svigrúm skapaðist af því að verkefnið Nám er vinnandi vegur var ekki eins fjölsótt og fyrri ríkisstjórn gerði ráð fyrir þannig að nú er lagt til, eins og ég fór yfir, að þetta verði fært til og það notað í endurskipulagningu vegna styttingar náms sem er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.

Meiri hlutinn átelur þau vinnubrögð sem ég var að fara yfir, að verið sé að gera tillögu um það í fjáraukalögum að færa fjárheimildir yfir á næsta rekstrarár, og við bendum á að réttara sé að ónýttar heimildir falli niður og ráðherrar geri þá nýjar tillögur um útgjöld í fjárlög í samræmi við breytta forgangsröðun þannig að tillögurnar rúmist innan fjárhagsramma hvers árs. Engu að síður gerir meiri hlutinn ekki breytingar á þessu fyrirkomulagi að þessu sinni en beinir því til ráðuneytanna að taka upp ný vinnubrögð þannig að þetta verði í síðasta sinn sem fjárlaganefnd þarf að fást við verkefni af þessu tagi í vinnu við fjáraukalög.

Einstakar breytingartillögur á gjaldahlið eru skýrðar í álitinu, en meiri hlutinn vekur sérstaka athygli á því að í frumvarpinu er lagt til að fjárheimild tveggja rannsóknarnefnda Alþingis hækki um 321 millj. kr. Ég vil vekja athygli á því að heildarkostnaður nefndar um Íbúðalánasjóð og nefndar um rannsókn á sparisjóðunum er þá áætlaður 802 milljónir. Bent er á, virðulegi forseti, að þegar rannsóknarnefnd Alþingis, um fall íslensku bankanna, var endanlega búin að skila skýrslu sinni til Alþingis hljóðaði sá reikningur fyrir skattgreiðendur upp á rúman hálfan milljarð.

Þarna erum við komin með tvær nefndir, nefndina um Íbúðalánasjóð og nefndina um sparisjóðina, langt fram úr því sem rannsóknarnefnd Alþingis fór með af skattfé, þ.e. 802 milljónir. Ég geri sterkar athugasemdir við það, virðulegi forseti, hvernig rannsóknarnefndir þær sem Alþingi sjálft hefur skipað hafa á einhvern hátt fengið að leika lausum hala og raunverulega ekki skilað á þeim tímapunkti sem áætlað var; sífellt fengið lengri tíma og óskað eftir lengri tíma til að rannsaka enn frekar. Þetta hefur gríðarleg áhrif á rekstur ríkissjóðs þegar þessar þrjár rannsóknarnefndir hafa tekið til sín um 1,3 milljarða. Ég vek athygli á því að enn er rannsóknarnefndin um sparisjóðina að störfum og hefur fengið enn einn frestinn til að skila af sér. Nú er áætlað að ekki eigi að skila fyrr en í febrúar á næsta ári þannig að enn á eftir að falla til kostnaður sem skattgreiðendur þurfa að bera þungann af.

Ég geri alvarlegar athugasemdir við þetta, virðulegi forseti, og fagna því að nú er komin af stað í forsætisnefnd umræða um umfang og ramma þeirra rannsóknarnefnda ef Alþingi fer aftur af stað með rannsókn af þessu tagi því að svona fjáraustur er ekki líðandi fyrir fjárveitingavaldið, að vera raunverulega með opna heimild inn í svona rannsóknir.

Ef framhald verður á því að Alþingi skipi rannsóknarnefndir af þessu tagi telur meiri hlutinn brýnt að afmarka markmið og umfang starfsins miklu betur en gert hefur verið fram til þessa, auk þess sem skýra þarf fjárhagslega ábyrgð og hvernig haga skal kostnaðareftirliti en hvort tveggja hefur verið mjög óljóst og óskilgreint. Í skipunarbréfum rannsóknarnefnda verða þessi atriði að vera miklu skýrari en nú er raunin. Því ber að fagna.

Í nefndarálitinu kemur einmitt umræða um þessi atriði og þá er brýnt að afmarka markmið og umfang starfsins miklu betur en gert hefur verið.

Gerð er tillaga um 4.500 millj. kr. framlag til Íbúðalánasjóðs í frumvarpinu vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sjóðsins en meiri hlutinn bendir á að ekki liggur enn fyrir fullnægjandi aðgerðaáætlun um hvernig leysa á fjárhagsvanda Íbúðalánasjóðs til frambúðar og er það verulegt áhyggjuefni. Að mínu mati er komið að tímamótum í þessu efni, enda er nefnd að störfum til að finna út úr framtíðarskipulagi sjóðsins. Eins og menn muna voru upphaflega settir 33 milljarðar inn í Íbúðalánasjóð. Svo voru settir til viðbótar 13 milljarðar á síðasta kjörtímabili og gerð er tillaga um að hér fari 4,5 milljarðar í fjáraukalögum. Er rétt að upplýsa þingmenn um það að sömu upphæð, 4,5 milljarða, er að finna í fjárlögum fyrir árið 2014. Við erum því að tala hér um að Íbúðalánasjóður sé að slá upp í 50 milljarða kr. kostnað fyrir skattgreiðendur frá bankahruni. Við þessu verður að bregðast sem fyrst.

Ég ætla loks að geta þess að meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að ekki verði fallist á tillögu í frumvarpinu upp á 46,7 milljónir. Það framlag átti að fara til sendiráðsins í Vín vegna fjárdráttar. Meiri hlutinn ætlar heldur að miða við að ráðuneytið beri sjálft þennan kostnað þar sem ljóst þykir að fjárhagseftirlit utanríkisráðuneytisins brást þegar þetta mál kom upp. Það kom upp 2009 og því er einkennilegt að þessi tillaga komi hér inn í fjáraukalagafrumvarp fyrir 2013 þegar ný stjórnvöld hafa tekið við. Þar sem eftirlitsskylda ráðuneytisins með sendiráðum er rík tók meiri hlutinn ákvörðun um að verða ekki við þessari bón. Ég tel persónulega jafnframt að það sé mjög slæmt fordæmi að fjárveitingavaldið líti í gegnum fingur sér með refsiverða atburði af þessu tagi þannig að leysa verði það á annan hátt en að senda skattgreiðendum þann reikning.

Um þessa breytingartillögu er fjallað í nefndarálitinu og þar er þetta rökstutt enn frekar.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að eftir lok 2. umr., sem hér fer fram, verði málinu vísað á ný til fjárlaganefndar svo að nefndin geti fjallað um það milli 2. og 3. umr. Undir þetta nefndarálit ritar auk mín meiri hluti fjárlaganefndar, hv. þingmenn Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Páll Jónsson, Haraldur Benediktsson, Karl Garðarsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið framsöguræðu minni við fjáraukalög fyrir árið 2013.