143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hóf yfirferð sína með því að benda á, sem rétt er, að ekki tókst að mæta þeim markmiðum sem lagt var upp með með fjárlagafrumvarpi 2013. Hún benti á að þar séu stærstu upphæðirnar og stærsti hlutinn á tekjuhliðinni og nefndi í því sambandi kosningaloforð fyrri ríkisstjórnar.

Virðulegur forseti. Getur ekki verið að það séu einmitt kosningaloforð núverandi ríkisstjórnar sem þarna skipta miklu máli? Þarna erum við að tala um lækkun á veiðigjaldi, við erum að tala um lækkun á virðisaukaskatti til þeirra sem nýta sér hótel- og gistiþjónustu og lækkun á IPA-styrkjum. Þetta eru samtals rúmir 4 milljarðar. Getur ekki verið að stór kosningaloforð sem byrjað var að henda út snemma á þessu ári, og bið eftir efndum þeirra, séu hluti skýringar á því að neysluskattur skilar sér svo illa framan af ári?

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvort ekki geti verið að það séu einmitt kosningaloforð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem hafa þarna áhrif á tekjuhliðinni. Ég vil einnig spyrja hv. þingmann út í þá breytingu að markaðar tekjur til fjarskiptasjóðs skili sér ekki til sjóðsins og spyr hana um áhrif þessa á verkefni sjóðsins og hinar dreifðu byggðir landsins.