143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur kærlega fyrir þessa spurningu. Eðli málsins samkvæmt erum við ekki sammála. Hún fór yfir það að tekjusamdráttur miðað við áætlanir vinstri ríkisstjórnarinnar sé annar vegna þess að Framsóknarflokkurinn hafi verið með kosningaloforð. Ég benti á það í ræðu minni að gert er ráð fyrir að innheimta tekna skili aukalega 5 milljörðum miðað við það sem ríkisstjórnin reiknaði kannski með. Ég tel að það sé vegna þess að hér voru haldnar alþingiskosningar og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn unnu stórsigur. Sú trú í brjóstum landsmanna að vænta megi breytinga — og breytingarnar komu raunverulega fram strax í sumar — eykur bjartsýni fólks og efnahagslífið fer að lifna við eins og sannast. Eins og ég fór yfir í ræðu minni hafa virðisaukaskattstekjur ríkisins stóraukist og það er dæmi um að neysla sé að aukast og aukin neysla varð að fara af stað til þess að koma atvinnulífinu í gang, þannig að ég er mjög ánægð með það.

Hér var einnig farið yfir IPA-styrkina, að ríkisstjórnin hefði gert ráð fyrir IPA-styrkjunum í fjárfestingaráætlun sinni. Við vitum öll hvernig fór um sjóferð þá. Sá flokkur sem vildi ganga í Evrópusambandið fékk 12,8% í alþingiskosningunum þannig að að sjálfsögðu hætti Evrópusambandið við að veita skattfé frá borgurum ríkja Evrópusambandsins um leið og sú umsókn var sett til hliðar, eðlilega, enda reiknuðum við framsóknarmenn aldrei með styrkjum frá skattgreiðendum Evrópusambandsins sem tekjum inn í áætlanir okkar.

Seinni spurningunni, virðulegi forseti, verð ég að svara í næsta andsvari því að tíminn er búinn.