143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svo að þegar gagnrýni kemur frá fyrrverandi ríkisstjórnarflokkum þá er stemningin eins og þeir hafi aldrei setið í ríkisstjórn. Nú er verið að kvarta yfir bágri fjárhagsstöðu fjarskiptasjóðs. Ég get alveg sagt það að fjarskiptasjóður var sveltur á síðasta kjörtímabili fyrir utan það sem lagt var inn í sjóðinn vegna Farice-sæstrengsins. Það hefur komið fram hjá gestum fjárlaganefndar að kennitala Farice var undir fjarskiptasjóði því einhvers staðar þurfti nýtt verkefni sem var tekið í fang ríkisins að eiga heima þannig að kennitala fjarskiptasjóðsins heyrir undir samgönguráðuneytið en fjármálaráðherra fer með hlutabréfið í strengnum.

Eina fjármagnið sem kemur inn í fjarskiptasjóð er í gegnum fjárlög sem hefur verið stóraukið á hverjum einustu fjárlögum miðað við þann samning sem ríkið gerði á sínum tíma í tengslum við kennitöluna sem Farice-sæstrengurinn hefur. Það er því mikið vandamál í uppsiglingu. Í sjóðnum eru inn- og útgreiðslur og þar situr stjórn og rekin er skrifstofa fyrir verkefnið í Turninum í Kópavogi. Ég fóstraði þetta mál á síðasta kjörtímabili og kem til með að halda því áfram.

Ríkisstjórnin fundaði í morgun um meðal annars átak í nettengingu hringinn í kringum landið og vænta má nýstárlegra hugmynda í þeim málum á næsta ári eða þarnæsta þar sem netmálin og raunar ljósleiðaramálin hringinn í kringum landið verða jafnvel sameinuð í eitt, en það er best að ríkisstjórnin upplýsi það betur.

Virðulegi forseti. Það er eins og þingmaðurinn hafi ekki hlustað á ræðu mína því að ég eyddi drjúgum hluta ræðunnar í að gagnrýna tilfærslur á þessum 300 milljónum sem þingmaðurinn spurði um og (Forseti hringir.) því vísa ég í ræðuna. Ég hvatti einmitt (Forseti hringir.) til þess að fjárlaganefnd þyrfti ekki að standa frammi fyrir slíku aftur.