143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að ég hlustaði ekki nógu vel og hv. þingmaður telur sig hafa komið ágætlega inn á þetta í ræðu sinni þá spyr ég: Ef hún er mjög mótfallin þessu og í ljósi margra annarra tillagna sem hér hafa komið fram og við höfum rætt innan nefndarinnar, m.a. hvað tilheyrir ófyrirséðum útgjöldum o.fl., hyggst hún þá greiða atkvæði gegn málinu eða telur hún sér fært að styðja málið ef það gengur gegn hennar skoðunum?

Varðandi Farice vil ég minna á að það var heldur betra bú, þrátt fyrir kvartanir, sem núverandi ríkisstjórn tók við en sú sem áður sat og tók við eftir hrun.

Hvað varðar Farice þá langar mig að spyrja, af því að hv. þingmaður talaði um að hún væri með málið í fóstri, hvort hún hyggist beita sér fyrir því að breyta einhverju varðandi Farice og stjórnina vegna þess að það var samþykkt á Alþingi 2011 samhljóða þverpólitískt að tekjur sjóðsins væru sértekjur af (Forseti hringir.) rekstrargjöldum sem til koma vegna upphafs Póst- og fjarskiptastofnunar, samanber lög um fjarskipti, og hugmynd Alþingis þá með styrkingu sjóðsins var að stuðla að því að fjarskiptalegum skuggasvæðum (Forseti hringir.) landsins yrði fækkað, m.a. vegna neyðar- og öryggissjónarmiða, og að stuðla að frekari (Forseti hringir.) ljósleiðaravæðingu.