143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa beint upp úr nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta. Þar segir:

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að framlög frá sambandinu lækki um 556 millj. kr.“ Það er verið að tala um IPA.

Varðandi lækkun tekna ríkissjóðs út af veiðigjöldunum eru það 3,2 milljarðar. Virðisaukaskattur á hótel- og gistiþjónustu eru 500 milljónir. Hallinn er 25–31 milljarður eftir því hvaða aðferð menn nota. Þetta skýrir því ekki nema örlítið brot og nær ekki einu sinni 20%. (Gripið fram í.) Þetta eru ekki neinir 20 milljarðar. 3,2 í veiðigjöldin, 500 millj. kr. eru virðisaukaskatturinn á hótel- og gistiþjónustu. (Gripið fram í.) Nákvæmlega, það er það sem ég er að segja. Þetta er ekki skýringin á hallanum. Ég skil ekki af hverju, nema stjórnarandstaðan vilji í fullri alvöru halda röngum upplýsingum að almenningi, sífellt er klifað á því að þetta séu ástæðurnar fyrir hallanum árið 2013. Það er ekki rétt. (Gripið fram í.)Þetta nær ekki upp í 20% og er ekki ástæðan.

Ég ætla mönnum það ekki og held að ég hafi misskilið eitthvað því að ég trúi því ekki að einhver haldi því í alvöru fram að tekjur af virðisaukaskatti og umsvifum almennt — það munar 11,6 milljörðum — að þetta sé til komið vegna kosningaloforða annars stjórnarflokksins eða beggja. Ég trúi því ekki að nokkur ætli það.

Aðalatriði málsins eru að þessar sífelldu yfirlýsingar um að veiðigjöldin og afslátturinn af virðisaukaskattinum á ferðaþjónustuna skýri 30 milljarða halla árið 2013 eiga ekki við rök að styðjast. Það er langur, langur, langur — langur — vegur frá því.