143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera eina athugasemd við nefndarálit meiri hlutans og það sem hér kemur fram hvað varðar að ekki skuli tekið tillit til þess að mæta tjóni sem varð árið 2009. Málið er þannig vaxið að árið 2009 var framinn fjárdráttur í einu sendiráði Íslands. Það hefur hins vegar tekið mjög langan tíma að ljúka því máli, sem er ekkert óeðlilegt. Það hefur tekið svona langan tíma vegna þess að það þurfti að kæra, það þurfti að rannsaka, dæma og reyna að innheimta bætur. Þess vegna er þetta mál komið hingað inn núna.

Það er einhver misskilningur, að ég tel, hjá fjárlaganefnd um það hvernig málið er til komið og hvernig eigi að ljúka því. Þetta fer allt eftir hefðbundnum leiðum og reglum með þeim hætti að ófyrirséðum atvikum, eins og þetta er, er mætt með fjáraukalögum.

Ég vil bara koma þessari athugasemd hérna á framfæri og bið nefndina vinsamlegast um að taka það til athugunar. Ég er reiðubúinn að koma á fund nefndarinnar til að skýra málið frekar.