143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:16]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætli hv. þingmaður þekki ekki þennan málaflokk svolítið betur en ég? Það er vissulega rétt og hefur komið fram að það er gamall halli á nokkrum þessara stofnana, sem hefur verið frystur.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur svarað því hér til að 2/3 af halla Landspítalans, þ.e. þessum tæpu 3 milljörðum, verði afkrifaðir í lokafjárlögum, sem ég tel mikilvægt, þá er verið að standa við þar til gerða samninga. Hins vegar er áhyggjuefni að hallinn innan þessa árs skuli vera áætlaður 1,5 milljarðar af því að Landspítalanum hefur tekist að vera innan marka undanfarin ár.

Það hefur ekki komið fram að aðrar heilbrigðisstofnanir eigi að njóta þessa, fyrir utan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem ráðherrann svaraði að yrði tekið eins á. Nú þekki ég ekki til þessara samninga að öðru leyti, þ.e. hvort þeir eru við Heilbrigðisstofnun Suðurlands eða Suðurnesja. Það væri áhugavert að vita vegna þess að hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurn minni hvað þetta varðaði í þá veru að það væri auðvitað viðkvæmt að beita slíkum úrræðum til að gefa ekki fordæmi. Því má velta fyrir sér: Eru hugsanlega mismunandi samningar í gangi? Eins og ég segi þekki ég það ekki en það er auðvitað mjög mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess að nú á að fara að sameina fullt af heilbrigðisstofnunum í stór umdæmi, að vita hvort hallinn verði með einhverju móti tekinn til afgreiðslu. Það verður afar áhugavert að sjá hvort stofnanir verða meðhöndlaðar með mismunandi hætti, af því að staða þeirra er ólík, eins og Sjúkrahúsið á Akureyri sem hefur gengið á höfuðstól sinn og fleiri.

Ég tek undir það að við þurfum (Forseti hringir.) að skoða þessi mál betur.