143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér sýnist mikilvægt að nefndin fái þetta til skoðunar á milli 2. og 3. umr. og fari betur yfir þessi mál. Að einhverju leyti sýnist mér að menn séu ekki að glíma við verkefni í fjáraukalögunum til að geta svo bætt inn á næsta ári, kannski til þess að eigna sér einhvern þátt í því sem þar kemur til aukningar.

Staðreyndin er sú og þess vegna er mjög athyglisvert þegar menn ræða um viðbótarfjárveitingar á næsta ári, sem við styðjum að sjálfsögðu heils hugar varðandi heilbrigðismálin, að fjárlögin fyrir árið 2014 gera ráð fyrir 220 millj. kr. niðurskurði á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og því til viðbótar 135 millj. kr. á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Guð láti gott á vita, það er nú búið að tala um að bæta við allt upp að 5 milljörðum og þá leiðrétti menn þetta. Væntanlega verða menn líka að glíma við hallann.

Það sem mig langar að heyra frá hv. þingmanni er náttúrlega umræðan í fjárlaganefnd. Hér eru tvær tillögur frá minni hlutanum, annars vegar um 125 millj. kr. vegna Landspítalans og hins vegar vegna leiðréttingar á húsaleigu. Mig langar að spyrja hver ástæðan er fyrir að menn tóku þetta ekki inn. Mér er kunnugt um að þetta var lagt mjög skipulega fram og 125 millj. kr. framlag Landspítalans var til komið þannig að þegar sýkingar komu upp á spítalanum í byrjun árs var fyrir fram óskað eftir leyfi ríkisstjórnarinnar til þess að fara í aðgerðir. Þær voru samþykktar. Eftir á kom niðurstaða með útreikningi og öllu slíku um hvað hefði kostað að grípa til þeirra aðgerða. Það kostaði 125 millj. kr. Það var samþykkt að veita fé til þess. Það er ekki í fjáraukalögunum á sama tíma og við fáum bæði kindur og kal í túnum inn sem ég styð heils hugar. Mig langar því að heyra hvernig umræðan var í fjárlaganefnd eins mikið og hv. þingmaður má upplýsa um það.