143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og sérstaklega fyrir að glíma aðeins við stóru drættina í þessari mynd og rifja upp aðstæðurnar eins og þær voru hér 2008–2009, og spurningu um aðferðafræði. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni að jafn göfugt og það markmið er að stefna sem fyrst að hallalausum fjárlögum skiptir máli hvernig því er náð og hversu traustur sá grunnur er.

Eins og við þekkjum bæði, geri ég ráð fyrir, ég og hv. þingmaður, var valin svonefnd blönduð leið tekjuöflunar og sparnaðar í útgjöldum en nú er greinilega orðin þar umtalsverð stefnubreyting á. Ég var aðeins að horfa á að tæplega er hægt að segja að nokkur áhersla sé á tekjuöflun vegna þess að í einu einasta tilviki virðist hæstv. ríkisstjórn ætla að afla tekna á næsta ári með hækkuðum bankaskatti en skattahækkanirnar á móti vega það upp og rúmlega það þannig að í reynd mun hinn stabíli tekjugrunnur ríkisins lækka á næsta ári en í staðinn er boðaður umtalsverður niðurskurður.

Þá kemur upp áhugaverð spurning um þjóðhagsleg og hagvaxtarleg áhrif slíkrar stefnubreytingar í ríkisfjármálum sem væri fróðlegt að ræða. Ég vil spyrja hv. þingmann: Óttast hv. þingmaður að með þessu kunni menn að vera að kæla niður hagkerfið, samanber þá umræðu sem fer núna víða fram og var síðast í útvarpinu í morgun um vaxandi efasemdir manna um að beita niðurskurðar- eða aðhaldsaðgerðum einum við svona aðstæður. Ég held að á Íslandi séu þeir tímar að renna upp að við þurfum að fara að greina þetta vel og vandlega.

Í öðru lagi, af því að hv. þingmaður nefndi desemberuppbæturnar og hv. þingmaður er formaður velferðarnefndar Alþingis það ég best veit, vildi ég gjarnan spyrja hvort velferðarnefnd hafi tekið það mál til umfjöllunar og hvernig menn meta aðstæður atvinnulausra núna. Við heyrum ekki skemmtilegar fréttir af (Forseti hringir.) ásókn í fjárhagsaðstoð fyrir jólin og ugglaust má gera ráð fyrir því að einhverjir illa settir atvinnuleitendur séu í þeim hópi.