143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Varðandi kælingu á hagkerfinu lauk ég ræðu minni á því að spá halla á fjárlögum allt þetta kjörtímabil, komandi kjörtímabil. Það hefur sýnt sig að hin blandaða leið sem hér var valin í upphafi síðasta kjörtímabils hefur einmitt skilað Íslandi hagvexti umfram meðaltal OECD-ríkjanna. Núverandi hægri stjórn ætti að líta til ýmissa nágrannaríkja okkar sem hafa valið grimmari niðurskurðarleið en þá sem við völdum. Það er ekkert sérstaklega farsæl saga. Þar eru ríki sem mundu dauðöfunda okkur af þeirri stöðu sem við erum í núna eða vorum a.m.k. í við síðustu kosningar. Ég held að þegar þjóðir heimsins fara í gegnum svona fádæma ástand eins og við erum í núna verði að beita blönduðum aðferðum og einnig verður að gæta réttlætis gagnvart almenningi sem ber byrðar sem það síst á skilið að bera. Það verður að reyna að gæta þess að fólk sjái að einhver skynsemi sé í þeim aðferðum sem eru valdar, annars er hætta á miklu ólguástandi. Við höfum svo sem farið í gegnum það hér.

Varðandi aðstæður atvinnuleitenda hefur nefndin ekki fjallað sérstaklega um það nýlega. Ég tel satt að segja að við höfum trúað því að félags- og húsnæðismálaráðherra fengi stuðning við þann vilja sinn að greiða út desemberuppbót. Það gaf eiginlega (Forseti hringir.) upp á okkur núna við 2. umr. um fjárauka að svo verður ekki.