143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á lokaspurningu hv. þingmanns. Ég vil bara heiðarlega segja hér sem ég stend að ég treysti mér ekki til að svara hv. þingmanni. Ég skal þó leggjast yfir málið og ræða það við hana á öðrum vettvangi.

Ég er alveg sammála því að ég held að þetta fjáraukalagafrumvarp sem varðar fyrri ríkisstjórn beri ágætlega vitni þeim aga sem gilti í ríkisfjármálum. Þegar farið er yfir frávik frá frumvarpi í fjáraukalagafrumvörpunum voru þau mest í heildartekjunum en í frumtekjunum hefur aginn verið mikill, hitt er meira ófyrirséð og erfiðara að ráða við oft og tíðum.

Í frumvarpinu er líka vitnað í að innleiða þurfi lög um opinber fjármál. Ég held að það sé mjög mikilvægt að innleiða það í lög sem fyrst og að það verði samstaða um það í þinginu. Skýrar reglur í ríkisfjármálum eru öllum til góða í lengdina.

Það var hafin vinna að þessu í tíð síðustu ríkisstjórnar. Sú lagasetning hefur verið mjög vel undirbúin. Fjárlaganefnd kom á fyrra kjörtímabili þó nokkuð að þessari vinnu og ég veit að svo er enn. Ég vona að lögfesting á því frumvarpi verði í vor eða næsta haust því að allt sem eflir aga og gegnsæi í ríkisfjármálum er til góðs fyrir þetta litla ríki.