143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:18]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta milda, fyrsta andsvar. Já, það er rétt að ég hef áhyggjur af þessu með fjáraukalögin og ég hef spurt um það á nefndarfundum að þau þekkjast varla annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta er svolítið séríslenskt og það segir mikið, finnst mér.

Þessi liður sem hv. þingmaður nefnir — 300 milljónir, ef ég man rétt — var vegna þess að verkefnið Nám er vinnandi vegur var lagt niður. Það hefði í raun átt að fella þetta niður og setja framlagið inn á fjárlög næsta árs, ég held að samstaða hafi verið um það í þinginu að þessir peningar voru ekki nýttir. En þeir fara í önnur úrræði, það er hugmyndin með þessu, sem munu hugsanlega nýtast sama markhópi, sem ekki var að nýta sér þetta. Það hefði kannski þýtt að fjárlögin 2014 hefðu ekki verið hallalaus eða þá verið á sléttu.