143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held kannski að menn hafi verið fullmetnaðarfullir í áætlun fyrir þetta ár. Eins og við rekjum í nefndaráliti okkar eru tekjur að minnka. Það eru ýmsar ástæður fyrir því eins og við rekjum en ég held að ekki verði afgangur af fjárlögum 2014, ég sé ekki að það muni verða afgangur af því frumvarpi, það eru of margir veikleikar í því, og ég held líka að það hafi verið of margir veikleikar í frumvarpi til fjárlaga sem við erum núna að reyna að loka, fyrir árið 2013. Ég get ekki rakið það hérna á þessari mínútu sem ég fæ en menn hafa kannski talið að kreppan væri búin. Hún er ekki búin og það kemur fram í einkaneyslu og fleiru, sala eigna gekk ekki eftir. Ég var t.d. mjög ósátt við það að menn skyldu ekki hækka virðisaukaskattinn á gistingu. Mér finnst að ferðaþjónustan eigi hreinlega að leggja meira til þjóðarbúsins.