143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir innlegg hans. Mér finnst þetta mjög góður punktur. Ég hef einmitt verið að hugsa um það, nýgræðingurinn sem ég er, þegar ég les fjáraukalögin af hverju þetta kemur ekki inn á þingið jafnóðum. Við höfum ekkert um málið að segja þegar það kemur til okkar í nóvember. Af hverju samþykkjum við ekki heimildir jafnóðum? Ég tek alveg heils hugar undir það.

Það er rétt að alltaf verður að gera ráð fyrir einhverju ófyrirséðu og það eru að mig minnir mig 5 milljarðar sem settir eru til hliðar núna vegna ófyrirséðra útgjalda. Auðvitað getur eitthvað gerst eins og eldgos sem við þurfum að bregðast við. En ég er alveg sammála því að í rauninni ættu að vera fjáraukalög í gegnum árið þar sem við samþykktum heimildir jafnóðum en ekki þegar búið er að eyða peningunum.