143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæt svör, sérstaklega hvað varðar að hafa mörg fjáraukalög eftir hendinni. Ég hugsa að þá verði meiri agi í því hvað fellur undir að vera ófyrirséð og menn þurfi að rökstyðja það.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um eru stórir póstar sem liggja eins og lík í lestinni, LSR, B-deildin. Hún átti að standa undir sér en þar vantar 61 milljarð og þá erum við að tala um alvörupeninga, ekki einhverjar 10 milljónir. Hvað finnst hv. þingmanni um það? Hvað finnst hv. þingmanni um að á Alþingi séu samþykkt fjárlög og fjáraukalög og allir eru voðalega hamingjusamir, hafa heimild til þessa og hins en svo sjáum við ríkisreikning og hann er allt annar?

Ég hef nefnt það áður að árin 2009, 2010 og 2011 var ríkisreikningurinn 101 milljarði hærri í halla heldur en fjárlög og fjáraukalög. Er þetta ekki hluti af aganum?