143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það vekur athygli mína að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur ekki kosið að eiga hér umræður um þær breytingartillögur sem nefndar voru við hv. þingmann um forsetaembættið og sömuleiðis forsætisráðuneytið. Það er kannski hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur ákveðinn vorkunn að á þessum degi hefur verið gert lítið úr tillögum hennar í ríkisfjármálum, þær kallaðar getgátur og það afturkallað í einni ræðu á örskotsstundu sem hv. þingmaður hefur vaðið eld og brennistein fyrir á opinberum vettvangi. (Gripið fram í.) Við erum hér að ræða eitthvað sem hæstv. forsætisráðherra kallar getgátur sem eru tillögur meiri hluta fjárlaganefndar og auðvitað er okkur ákveðinn vandi á höndum þegar við vitum ekki alveg hvort þær muni vera í gildi í kvöld eða hvort forustumenn ríkisstjórnarinnar munu boða til nýs blaðamannafundar í fyrramálið til að kynna afturköllun á þessum getgátum og kynna nýjar tillögur á morgun eða hvernig því víkur við.

Ég vil biðja hv. þingmann að fara aðeins nánar út í það sem hann nefndi um gælurnar við forsætisráðuneytið og tillögurnar um embætti forseta Íslands, hvort hann sjái eitthvað athugavert við auknar fjárveitingar til þessara tveggja embætta sem er að finna í tillögunum og hvort hann telji að þær samræmist lögunum um fjáraukalög.