143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[19:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég nefndi held ég í ræðu um fundarstjórn forseta fyrr í dag þá er alveg fullgilt að gera við það athugasemdir að við séum að ræða fjáraukalögin þegar allt sem snýr að forsendum fjárlaga næsta árs er á jafn miklu floti og raun ber vitni. Okkar berast fréttir utan úr bæ um að verið sé að kynna einhverjar tillögur og svo eru þær afturkallaðar og nýjar tillögur kynntar — hvað lifa þær lengi? Hver veit? Hver er að gera hvað í umboði hvers? Það er afar óljóst, ósköp einfaldlega af því að afgreiðsla fjáraukalaga og forsendur fjárlaga næsta árs hanga saman. Það er bara þannig. Þetta eru mjög tengd mál. Ég tala ekki um þegar þau eru til umfjöllunar og mætast á einum tímapunkti alveg undir lok ársins. Það liggur í hlutarins eðli.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði um og ég nefndi sem dæmi um nokkra hluti sem eru mikið á skjön við annað og andann í þessu frumvarpi sem er ekki upplífgandi að stærstum hluta til nema í einstökum tilvikum. Það er ekki af neinni meinbægni út í forsetaembættið að ég geri það sérstaklega að umtalsefni hér en það vill bara svo til að ég man að það fékk tvo myndarlega liði til hækkunar afgreidda við afgreiðslu fjárlaga í sama mánuði síðasta árs upp á 16 milljónir og annan rúmlega. Maður hélt að þar með væri orðið sæmilega vel gert við embættið. Þess vegna kemur það mjög á óvart að einmitt á því ári sem hækkun upp á 34 eða 36 milljónir kemur inn í embættið þurfi 14 milljónir í viðbót undir lok þessa árs í fjáraukalögum. Það kemur manni mjög á óvart.

Varðandi forsætisráðuneytið finnst mér framsetningin á fjárlagatillögum þess mjög sérkennileg, að búa til einhverja potta og sjóði (Forseti hringir.) undir því ráðuneyti eins og eitthvert risavaxið skúffufé fyrir einn ráðherra. Það er helst það sem ég gagnrýni þar.