143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[19:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að þetta sé rétt. Í samræmi við minni mitt var ráðist í þessar aðgerðir í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og þær voru að uppistöðu til kostaðar af fjármunum sem voru færðir úr Atvinnuleysistryggingasjóði eða fjármagnaðir með tryggingagjaldi. Ríkið lagði vissulega talsvert fé á móti í ýmsar þessar aðgerðir og þá beint til skólanna o.s.frv., en að stærstum hluta var þetta fjármagnað með tryggingagjaldi og í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Auðvitað væri ekki skrýtið þótt þeir væru svolítið súrir yfir að sjá svo allt í einu þær æfingar sem þarna eru greinilega í gangi að taka þessar fjárveitingar úr þeim farvegi og búa þær í hendur menntamálaráðherra á næsta ári sem einhvern framtíðarsjóð fyrir hugðarefni hans um að stytta nám til stúdentsprófs eða hvað það nú er. Ég tel þetta líka skrýtinn frágang í skilningi fjárreiðulaga o.fl. Auðvitað hefði verið eðlilegast að þessi fjárveiting félli niður ef hún væri ekki nýtt í því skyni sem hún var mörkuð til, útgjöldin hefðu þá ekki orðið frá sjóðnum. En til þess að peningarnir verði í sjóði hæstv. ráðherra á næsta ári verður greiðslan að fara úr Atvinnuleysistryggingasjóði og inn í þennan nýja pott.

Varðandi framkvæmdirnar í ár þá er mjög dapurlegt að sjá ýmsar góðar framkvæmdir sem var verið að koma á og eru með fjárveitingar á þessu ári höggnar þarna niður, heilbrigðisstofnunina í Stykkishólmi, byggingu við heilbrigðisstofnunina á Selfossi, löngu tímabærar endurbætur, og nýja verknámshúsið við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Það er afar dapurlegt enda þegar maður greinir þetta núna mun opinber fjárfesting minnka umtalsvert milli ára og framlag samneyslunnar til hagvaxtar á næsta ári verða neikvætt vegna þess að við erum að fara aftur á bak í þessum efnum frá yfirstandandi ári.