143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[19:08]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er forvitnilegt og ég held að það sé mikilvægt að hv. fjárlaganefnd taki einmitt til skoðunar að hve miklu leyti Nám er vinnandi vegur var fjármagnað af aðilum vinnumarkaðarins og þá hvort menn geti ráðstafað fjármagninu með þessum hætti. Mér finnst mikilvægt að menn skili þessu a.m.k. til baka og hafi það þá inni í tryggingagjaldslækkun sem var búið að lofa en ekki var staðið við. Ekki þar fyrir að ég held að mikilvægt sé að framhaldsskólarnir fái sínar fjárveitingar en eins og hv. þingmaður nefndi hefði verið eðlilegra að skila þessum peningum og koma þá með fjármagn á næsta ár til þeirra hluta.

Sama er í sjálfu frumvarpinu til fjáraukalaga þar sem menn taka og safna saman hlutum sem eiga að fara í að borga húsafriðun og ýmislegt annað í forsætisráðuneytinu, eins og framkvæmdir. Við erum hér 10. desember, hvernig ætla menn að gera þetta allt saman fyrir áramót? Menn eru að safna í sjóði til að ráðstafa seinna.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra að. Annars vegar eru þær ákvarðanir sem við tókum í fyrri ríkisstjórn um að leyfa Landspítalanum að bregðast við sýkingum í janúar og febrúar á þessu ári, sem var leyft fyrir fram og síðan farið yfir allar áætlanir þegar kostnaðurinn lá fyrir, og samþykkt var í ríkisstjórn að veita í það 125 milljónum — sú ráðstöfun er hvergi í fjáraukalögum. Er eitthvert fordæmi fyrir því að þingið snupri með þeim hætti heila stofnun sem hefur gert ráð fyrir fjárveitingunum, fengið leyfi fyrir þeim, bara til að reyna að koma höggi á fyrrverandi ríkisstjórn?

Hins vegar er það húsaleigan þar sem nú er í fyrsta skipti ósamræmi á milli þess sem lagt er á heilbrigðisstofnanir sem nemur 140 milljónum og þess að nú verða heilbrigðisstofnanirnar að taka út úr rekstri heilbrigðisþjónustunnar til að borga Fasteignum ríkisins til að geta sinnt viðhaldi.

Mig langar (Forseti hringir.) að heyra skoðun hv. þingmanns á þessum tveimur aðgerðum.