143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega þannig með rannsóknir sem eru má segja forsenda framfara að þær eru oft mjög tímafrekar. Það á ekki síst við um grunnrannsóknir sem þarf að stunda árum saman og jafnvel áratugum áður en þær fara kannski að skila raunverulegum árangri. Þetta þekkja þeir sem starfa í rannsóknarumhverfinu mjög vel. Við eigum auðvitað mjög mikið af hæfum og flinkum vísindamönnum sem hafa getið sér gott orð og hafa oft og tíðum fengið styrki frá virtum erlendum rannsóknarsjóðum og stofnunum, en eins og þeir hafa bent á er forsenda fyrir því að ná í slíka styrki sú að menn hafi líka fjármagn heima. Það kostar mikla vinnu og fyrirhöfn að sækja um styrki og fá og oft þurfa menn að leggja styrki á móti.

Sömuleiðis er það þannig að mörg verkefna sem hljóta styrki eru verkefni sem samið er um til einhvers tíma, kannski þriggja ára. Það blasir við í mínum huga að jafnvel þó að fallið sé frá því sem átti að taka núna, það átti að taka niður einar 350 millj. kr. samanlagt það sem eftir lifir þessa árs — og það eru varla nema tvær vikur sem eftir lifa af árinu — getur þetta sett verkefni í uppnám. Það á við um þessa sjóði og væntanlega líka þau verkefni sem eru undir markáætluninni að menn eru að gera samninga um verkefni til einhverra ára. Ef það á síðan að fara í niðurskurðinn á næsta ári eins og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir þá hljóta mörg þessara verkefna að vera í fullkomnu uppnámi. Ég mundi gjarnan vilja heyra viðhorf hv. þingmanns til þess hvort hann deili ekki þeirri skoðun að mörgum verkefnum gæti verið stefnt í tvísýnu (Forseti hringir.) sem eru fín rannsóknarverkefni og gætu hlotið styrki.