143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þessi viðbótarniðurskurður upp á 5% sem boðaður var í fréttatíma RÚV áðan. Að minnsta kosti hefur hann ekki verið boðaður með öðrum hætti og það er til viðbótar áður boðuðum hagræðingarkröfum sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu. Það hlýtur því að vera uppsögn í farvatninu en auðvitað væri hagkvæmast að hafa það á stjórnarganginum þar sem fjölgun hefur orðið umfram víða annars staðar. Eins og réttilega var hér sagt er einmitt komin til heimild vegna þess að ráðuneytum var fækkað og umfangið því meira, en ekki gert ráð fyrir að þeim yrði fjölgað og ráðuneytunum skipt upp aftur.

Ég nefndi ráðherrabauk áðan og þetta með að flytja á milli liða. Ég velti því alveg fyrir mér hvort þetta sé í raun löglegt, eins og að flytja úr hafnarsjóði yfir á hælisleitendur eða eitthvað slíkt, að ráðherra geti ráðskast með það sem Alþingi hefur áður samþykkt og ráðstafað á milli óskyldra liða.

Hv. þingmaður hefur setið sem formaður fjárlaganefndar og því langar mig að spyrja hvort þetta hafi komið fyrir áður í hans tíð.

Þingmaðurinn nefndi græna hagkerfið sem yfirskrift og tilflutning eða að búinn væri til nýr liður úr einhverjum gömlum. Ég spurði ráðuneytið út í þetta af því að undir þessu er ekkert að finna sem tengist græna hagkerfinu. Það er ekki einu sinni á heimasíðu ráðuneytisins eða Stjórnarráðsins að þetta sé undir þar og ég benti á það á þessum fundi. Græna hagkerfið er sem sagt í engu þar undir heldur einungis sögulegar og menningartengdar byggðir en ég hef áhyggjur af því að (Forseti hringir.) allt sem fyrrverandi ríkisstjórn setti inn um græna hagkerfið hafi týnst.