143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið hér fram um fjáraukalögin. Mér sýnist hún um margt hafa verið málefnaleg og ágæt samstaða í fjárlaganefnd um fjölmörg atriði sem snúa að vinnunni sem fjárlagagerðin hefur í för með sér. Ég hef rennt hér bæði yfir álit meiri hlutans og álit minni hlutans. Það er eitt sem ég vil benda sérstaklega á. Það virðist vera samhljómur og samstaða um það, bæði hjá minni og meiri hluta, að fjáraukalög séu eitthvað sem við eigum að nota í sífellt minna mæli. Minni hlutinn bendir á það, en segir þó að því miður hafi hann engu að síður ekki komist hjá því að hafa nokkra útgjaldaliði þar inni sem eru hugsanlega á mörkunum um að teljast nauðsynlegir eða brýnir eins og áskilnaður laga segir til um, en minni hlutinn virðist vera sammála um þetta.

Ég hefði sjálfur alveg örugglega getað skrifað svipað nefndarálit og kemur frá minni hlutanum. Mér sýnist margt vera svipað, sem er bara jákvætt þannig lagað, en þó eru þarna áherslur sem ég mundi hugsanlega ekki kvitta upp á. Mér finnst skemmtilegt að sjá það sem segir hjá fulltrúum minni hlutans — reyndar skrifa þrír flokkar undir minnihlutaálitið sem er kannski sérstakt vegna þess að maður hefði ímyndað sér að stefna þessara þriggja flokka, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, væri mismunandi. Þeir koma fram undir einu áliti sem er svo sem allt í lagi, en þar segir: „Mikilvægt er að reikningsskil ríkisins gefi sem réttasta mynd af rekstri ríkisins á hverjum tíma.“

Þetta er akkúrat það sem vantaði upp á í fjárlagagerð síðasta kjörtímabils trekk í trekk. Ég benti á það ítrekað að við þyrftum með einum eða öðrum hætti að koma á nauðsynlegum aga í rekstri ríkissjóðs. Hv. fjárlaganefnd fór til Svíþjóðar til þess að kanna hvernig Svíar hefðu náð tökum á ríkisbúskapnum, hvaða aðgerðir þeir hefðu farið í eftir kreppuna sem skall á þeim fyrir um 20 árum síðan eða í kringum 1993. Þar var eitt sem stóð upp úr, alveg sama við hvern maður talaði, hvort sem hann var í stjórn eða stjórnarandstöðu; fjáraukalögum var í rauninni útrýmt. Það sem meira var: allar heimildir sem ráðherrar höfðu voru teknar af þeim. Á síðasta kjörtímabili voru heimildir færðar til ráðherra. Ég hef margítrekað bent á hvernig var farið með hina svokölluðu safnliði sem heyrðu undir fjárlaganefnd og sneru að mörgum mikilvægum verkefnum hringinn í kringum landið. Nú er þetta í rauninni undir embættismönnum og er mjög erfitt að hafa eftirlit með þessum fjármunum.

Svíar fóru aðra leið. Þeir sögðu að það væri óeðlilegt að ráðherrar gætu á einn eða annan hátt ráðskast með málefni og hefðu í sjálfu sér fjárheimildir, en samkvæmt stjórnarskránni er náttúrlega fjárlagavaldið hjá Alþingi. Það er mjög mikilvægt að við höldum það í heiðri.

Það var annað sem kom fram í þessari ferð okkar, sem tíðkast reyndar víðar á Norðurlöndum. Það er að hinn svokallaði fjárlagarammi er ákveðinn á vorin. Ég var mjög glaður að sjá tilburði í þá átt á síðasta kjörtímabili, að það væri stemning fyrir því á Alþingi að setja fram ný fjárreiðulög. Því miður réðist ríkisstjórnin ekki í það verkefni. Það var kynnt lauslega í fjárlaganefnd þar sem kom fram að nauðsynlegt væri að ákveða rammana á hverju vori, síðan mætti lítið hrófla við þeim. Aðeins þannig væri hægt að halda aga í ríkisrekstrinum og reyna að ná niður hinum mikla halla sem var því miður á fjárlögum ríkissjóðs.

Ég er afar ánægður að sjá að núverandi hæstv. fjármálaráðherra ætlar að leggja fram nýtt frumvarp um breytingu á fjárreiðulögum sem mér skilst að eigi að bera heitið lög um opinber fjármál. Í því frumvarpi skilst mér að þar verði sú breyting á fjárlagagerð að rammarnir verði allir ákveðnir á vorin. Við ræðum sem sagt stóru myndina og förum svo í það um haustið að raða innan hvers ráðuneytis, innan hvers málaflokks, en lítið sem ekkert er hróflað við römmunum.

Ég tel reyndar fleiri atriði nauðsynleg. Ég tel að við þurfum að fá sterkari mælingar á öllum stærðum, hagstærðum, varðandi hagvöxt, verðbólgu, varðandi áætlun, um ríkisfjármálin, til þess að við getum verið fullviss um það hver staða ríkissjóðs er á hverjum tíma.

Svíar gengu svo langt að þeir stofnuðu meira að segja ráð prófessora, ekki bara úr háskólum í Svíþjóð, frá Lundi og Uppsölum, heldur leituðu líka til Norðmanna, Dana og Finna til þess að fara yfir forsendur fjárlaga, skoða allar hagtölur og geta þá um leið áttað sig fyllilega á því hvernig þetta virkar allt saman.

Ég held að markmiðið hljóti alltaf að vera það að þeir þingmenn sem standa uppi í pontu og lofa útgjöldum verði um leið krafnir svara um það hvar þeir ætli að reyna að ná í fjármuni.

Ég geri mér samt grein fyrir því að þetta ferli tekur tíma. En ég er ánægður að sjá að það virðist vera samstaða bæði hjá meiri hluta fjárlaganefndar og minni hluta um þetta og að við eigum von á því hjá ríkisstjórninni að slíkt frumvarp líti dagsins ljós.

Ég ætla ekki að fara hér yfir einstök atriði, hvorki í áliti meiri hlutans né minni hluta, en ég fagna því að ekki sé hróflað mikið við fjáraukalögum á þessu stigi þótt það sé reyndar gert í undantekningartilvikum. Það er lagt til að fjárheimildir til Rannsókna- og Tækniþróunarsjóðs hækki um 221 millj. kr. og 150 millj. kr. sem svarar til skerðingar í frumvarpinu á 550 millj. kr. viðbótarframlagi sem veitt var til þeirra samkvæmt svonefndri fjárfestingaráætlun í fjárlögum ársins 2013. Ég tel þetta vera jákvætt ásamt mörgum atriðum hér sem ég ætla ekki að fara yfir en félagar mínir í fjárlaganefnd hafa rætt undir þessum lið.