143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir ágæta ræðu og sérstaklega þegar hann sagði frá ferð til Svíþjóðar þar sem menn voru að stúdera þessi mál, og kannski veitir ekki af. Hann sagði að þeir reyndu að hafa engin fjáraukalög og ráðherrar yrðu bara að fara að fjárlögum.

Þá spyr ég tveggja spurninga: Í fyrsta lagi: Kannski er ekki mikið af eldgosum þarna en þeir gætu haft skógarelda og einhverja ófyrirséða náttúruvá — við höfum eldgos og fjárfelli og við höfum jarðskjálfta: Hvernig taka þeir á slíkum útgjöldum á miðju ári? Segja þeir bara: Heyrðu, það er ekkert til fyrir þessu í fjárlögum, bíðið þið bara fram á næstu áramótum þegar ný fjárlög taka gildi?

Í öðru lagi: Hvernig semja þeir líka við opinbera starfsmenn? Ef þeir gefa upp í fjárlögum að þeir ætli að semja um 5% hækkun launa opinberra starfsmanna þá þurfa þeir ekkert að semja um meira. Þeir gefa því væntanlega lítið upp um hækkun launa ef kjarasamningar eru lausir, en hvernig geta þeir samið? Hvernig geta þeir samið um 5% hækkun ef ekki er til sænsk króna í fjárlögum og engin fjáraukalög? Það eru spurningar af þessu tagi sem vakna.

Ég er mjög ánægður að heyra þá þróun sem hann er að ræða og ég vildi gjarnan að fjárlaganefnd og þingmenn almennt ræddu meira um tilurð fjárlaga, fjáraukalaga og sérstaklega ríkisreikning, niðurstöðu hans. Þar ættu menn virkilega að setjast niður og fara í gegnum hvern einasta lið: Hvað var það sem brást? En því hafa menn því miður ekki gert mikið af.

Þessir rammar og þær hugmyndir eru mjög góðar en ég vildi spyrja hv. þingmann að þessum atriðum: Hvað gera Svíar ef það yrði skógareldur og það kostar óhemjumikið að bæta úr því? Vísa þeir þá bara á næsta ár?