143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Af þessari lýsingu sýnist mér að Svíar séu búnir að færa vandann af fjáraukalögum yfir í ýmis útgjöld og menn þurfi að rökstyðja útgjöldin með því að þau séu ófyrirséð, bara nákvæmlega eins og fjáraukalög. Ég held það sé ágætt að láta það heita fjáraukalög en þau mættu þá koma oftar. Ég hefði viljað að lögð yrðu fram fjáraukalög um leið og skaðinn liggur fyrir. Ef byggja þarf nýja brú yfir jökulfljót vegna eldgosa eða einhvers slíks þá verði það bara sett í fjáraukalög strax. Það er ófyrirséð, enginn mótmælir því og það væri þá nákvæmlega eins og Svíar nota þennan lið, ýmis útgjöld.

Mér líst mjög vel á að menn fari aðeins til útlanda og sjái hvernig aðrir gera þetta. Við þurfum ekki endilega að finna upp hjólið á öllum sviðum þó að við gerum það á mörgum sviðum. Það er örugglega hægt að læra mikið af erlendum þjóðum og alveg sérstaklega hvað varðar aga og það að menn fari að fjárlögum. Það er kannski næsta vers. Það næsta sem við þurfum að gera er að segja við alla að fjárlög séu æðri öðrum lögum nema stjórnarskránni. Í stjórnarskránni segir að ekki megi greiða krónu úr ríkissjóði nema til þess sé heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum, sem þýðir að þó að eitthvað standi í lögum, um að veita skuli þessa þjónustu eða hina, þá bara gildir það ekki. Fjárlögin standa framar samkvæmt stjórnarskránni.