143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:30]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Óhætt er að taka undir það með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni að auka þarf aga og minnka fjáraukann en klára samtímis þau lög sem fyrrverandi ríkisstjórn og fyrrverandi fjárlaganefnd höfðu unnið að og vörðuðu fjárreiðulög. Það er mjög mikilvægt sem kom þarna fram — það var prófað árið 2009, ótrúlegt nokk — að leggja fyrst fram frumvarp um forsendur og áætlanir um tekjur og útgjöld í heild og hafa það forsendur fyrir fjárlagagerðinni. Þetta var prófað 2009 en því miður hefur því ekki verið fylgt eftir.

Mig langar í framhaldinu að spyrja hvort hv. þingmaður meti það svo að vinnubrögðin sem við sjáum hér — með sérstökum þingflokksfundum, samþykktum ríkisstjórnar um einstök atriði dag eftir dag í fjárlagafrumvarpi sem hefur verið seinkað; í fyrsta lagi var fenginn frestur frá 10. september fram í október og síðan erum við aftur hér viku til tíu dögum eftir að ræða átti fjárlagafrumvarpið — beri þess merki að ný ríkisstjórn sé að vinna eftir þessum hugmyndum.

Í öðru lagi ætla ég aðeins að nefna þetta með ófyrirséðu útgjöldin. Það er ekki rétt, sem hv. þingmaður segir, að fjármununum hafi bara verið ráðstafað í hitt og þetta. Fjáraukinn á að vera með sundurliðun á því hvað hafi komið upp á. Það hefur verið kynnt jafnóðum fyrir fjárlaganefnd hvað ríkisstjórnin tók ákvarðanir um og það er því þeim mun dapurlegra að sumt af því sem þar var ákveðið, og var ófyrirséð eins og kostnaðurinn á Landspítalanum, skuli svo ekki skila sér í fjáraukalögin frá meiri hlutanum.

Hvað finnst hv. þingmanni þá um þær skúffur sem verið er að búa til hér, bæði í forsætisráðuneytinu og í menntamálaráðuneytinu? Inn í menntamálaráðuneytið koma 300 milljónir með peningum sem á að draga saman hér og verða til ráðstöfunar á næsta ári. Í skúffuna í forsætisráðuneytinu koma 200–300 milljónir sem ráðherra hefur til úthlutunar. Er núverandi ríkisstjórn ekki gjörsamlega á öfugri leið miðað við það sem hv. þingmaður ræddi?