143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég held ég geti sagt það fyrir hann, sem hann þorði ekki að segja, þ.e. að hann sé hundóánægður með hvernig ríkisstjórnin stendur að fjárlagagerðinni. Mér heyrist að hægt sé að lesa það út úr svari hans þó að ég biðji hann um að virða það við mig að það sé frjálsleg túlkun mín. Ég tel engu að síður mjög mikilvægt og miðað við síðustu yfirlýsinguna — sem er í raun, eins og hv. þingmaður bendir ágætlega á, í meirihlutaáliti frá fjárlaganefnd, að í raun séu þetta óþolandi vinnubrögð frá menntamálaráðuneytinu. Ég skil því ekki af hverju menn draga þetta ekki til baka og láta þessa peninga þá koma inn í fjárlögin, þar glíma menn við að veita 300 milljónir í þennan lið. Það er mikilvægt að styðja framhaldsskólann og reyna að sporna gegn brottfalli en við þurfum að ræða það betur með með hvaða hætti menn ætla að stytta framhaldsskólann.

Hv. þingmaður náði ekki að svara þessu með skúffuna í forsætisráðuneytinu. Það er nákvæmlega sama málið þar sem menn taka fjárlagalið, sem er hið græna hagkerfi, eru búnir að breyta því í að efla menningu, þjóðmenningu, eins og það var kallað í stjórnarsáttmálanum — húsbyggingar væntanlega, sem eru þá með upprunavottorð á Íslandi ef það á að vera þjóðmenning, mega þá væntanlega ekki vera gömlu dönsku húsin og norsku húsin. Án þess að vera að gera grín að því þá held ég að þarna sé um að ræða mikilvægan málaflokk en aðferðin er afar skringileg.

Þetta tengist kannski því, sem hv. þingmaður nefndi í sambandi við safnliðina, að erfitt verði að hafa eftirlit. Þó er það þannig að það er skylda að birta sundurliðun á öllum liðum. Það ætti auðvitað að vera hér í fjáraukanum líka, ráðstöfun á þeim liðum sem voru færðir til ráðuneytanna. Þar er það í flestum tilfellum undir sérstökum nefndum eða hópum sem hafa það hlutverk að úthluta, eins og bókmenntasjóðir, leiklistarsjóðir, safnasjóðir o.s.frv.

Það eru nokkrar undantekningar á því og ég deili því með hv. þingmanni að koma þarf góðum skikk á að faglega sé unnið. En að sjálfsögðu þarf að birta þá niðurstöðu (Forseti hringir.) og það hefði átt að vera hér í fjáraukanum þannig að Alþingi geti veitt (Forseti hringir.) aðhald þeim ráðherrum sem þar standa fremstir.