143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar fyrirspurnir og skal reyna að svara þeim.

Það er rétt að það hafa starfað hagræðingarhópar á vegum ríkisstjórnarflokka áður. Það er ekkert nýtt, held ég, í þingsögunni í sjálfu sér og ekkert óeðlilegt við að stjórnarflokkar séu með einhvers konar bakhópa til stuðnings sínum ráðherrum og sínu fólki í fjárlaganefnd til þess að fara yfir ýmis álitamál og gjarnan reyna að tengja það inn í ýmsa aðra málaflokka, aðrar þingnefndir, kannski ekki síst málaflokka sem eru útgjaldafrekir eins og hefur verið gert. Það hefur einfaldlega verið unnið þannig að þingflokkarnir hafa skipað fulltrúa í slíka nefnd og þeir hafa gert þingflokkunum grein fyrir starfi sínu, fundað með einstökum ráðuneytum, farið yfir útgjaldaramma hvers ráðuneytis fyrir sig og leitað leiða til að hagræða eða gera betur. Það finnst mér fullkomlega eðlilegt og ég hef engar athugasemdir við að núverandi hæstv. ríkisstjórn valdi þá leið að setja fjóra þingmenn til þeirra verka. Ég tel að það fari að mörgu leyti vel á því.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvað mér þyki um það ráðslag að einn þingmaðurinn úr þessum hópi sitji nú við hægri hönd forsætisráðherra í Stjórnarráðinu, eins og hv. þingmaður orðaði það, veit ég ekki hvort ég á að hafa mjög sterkar skoðanir á því. Ég vil þó segja að ég hef verið meðflutningsmaður hv. þingmanns á frumvarpi sem gerir ráð fyrir því að ráðherrar sitji ekki á þingi til þess að hafa valdmörkin á milli löggjafarþings og framkvæmdarvalds mjög skýr. Mér finnst það ekkert síður eiga við um aðstoðarmenn ráðherra, jafnvel enn frekar, vegna þess að þingið getur alltaf kallað ráðherra fyrir til þingnefnda og til svara í þingsal, en það geta menn ekki gert á sama hátt með aðstoðarmenn ráðherra. Mér finnst því eiginlega fara enn verr á (Forseti hringir.) því en með ráðherra ef eitthvað er. (Forseti hringir.)