143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:05]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á annað atriði sem ég hef nokkuð velt fyrir mér, það er um þennan sjóð — ég held að það séu 300 milljónir sem á að færa yfir og geyma til næsta árs af því að þær á að nota á næsta ári. Eins og kom fram hjá þingmanninum og kemur fram í nefndarálitinu og hefur komið fram hjá öðrum ræðumanni í dag er náttúrlega ekki mjög góð danska í þessu öllu saman, meira að segja meiri hlutinn setur ofan í við ráðuneytið og biður það að haga sér ekki svona aftur. Ég verð að taka undir með hv. þingmanninum að kannski hefði verið réttara, betra og meira í anda þess sem við erum held ég öll að gera, — ég segi það að ég held að fjárlaganefndin vilji það virkilega — við viljum öll bæta meðferðina á ríkisfjármálunum. Ég held að fjáraukalög séu okkur öllum svolítill þyrnir í augum.

Ég hef verið að velta því fyrir mér í dag og vil spyrja hv. þingmann hv. um skoðun hans á því, sem hann kom reyndar inn á en hann gæti kannski sagt eitthvað nánar um það, hvort áður en svona miklum fjármunum er ráðstafað í eins stóra aðgerð og stytting framhaldsskólans um eitt ár hlýtur að vera — og fólk hefur misjafnar skoðanir á því — sé ekki hægt að færa sterk rök fyrir því að það þurfi að tala um í þinginu — áður en hægt er að veita þá fjármuni, þá miklu fjármuni í verkefni af þessu tagi. Nú spyr ég sem fávís kona, eins og stundum er sagt.