143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek alls ekki undir það með hv. þingmanni að þingmaðurinn sé fávís kona, nema síður sé.

Eins og ég segi finnst mér þetta mjög sérkennilegt vinnulag. Ég ítreka að ég er sammála því sem segir í nefndaráliti meiri hlutans sem átelur þau vinnubrögð sem hér um ræðir og telur að réttara sé að ónýttar heimildir falli niður og að ráðherrann komi með nýjar tillögur um útgjöld í samræmi við einhverja stefnumótun innan næsta árs. Þetta er í raun og veru tvennt eins og ég sé það. Annars vegar sú bókhaldsaðferð að færa til gjalda á árinu 2013 verkefni sem ráðuneytið hyggst fara í á árinu 2014. Væntanlega mun ráðherrann síðan koma til fjármálaráðherra undir áramót og segja: Nú þarf hann að fá heimild til þess að færa þessa fjármuni á milli ára. Það getur hann ekki gert sjálfkrafa. Hann þarf að sérstaka heimild til þess.

Þetta eru því bókhaldsæfingar sem eru átaldar í nefndaráliti meiri hlutans. Ég tel að meiri hlutinn hefði átt að ganga alla leið og segja að hann fallist ekki á þessi vinnubrögð.

Hin hliðin á þessu máli er svo hin efnislega um það sem á bak við liggur og kemur sömuleiðis fram í nefndaráliti meiri hlutans þar sem hann segir að þetta sé svo sem vegna styttingar náms til stúdentsprófs. Þá hlýtur maður að gera þá kröfu að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem ber ábyrgð á þessu komi fyrir þingið og segi hver áform hans eru í því máli. Hvenær ætlar hann að leggja til að ráðist verði í slíka aðgerð? Með hvaða hætti er búið að ganga frá því hvernig það er gert? Á það að gerast í áföngum? Liggja fyrir samningar þar að lútandi við skólana í landinu, við samtök kennara o.s.frv.? Og þeim spurningum sé svarað áður en tekin er ákvörðun um að setja fjármuni á fjárlögum í verkefnið sjálft. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, ég tel að þetta verklag (Forseti hringir.) fái algera falleinkunn. Ég kalla eftir því að hæstv. menntamálaráðherra (Forseti hringir.) komi fyrir þingið og geri grein fyrir því hvernig hann ætlar að standa að þessu máli.