143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikið rætt í tengslum við fjáraukalögin að þau eigi að fjalla fyrst og fremst um ófyrirséða atburði og rétta upp það sem fjárlögin hafa ekki náð utan um, eitthvað óvænt, eitthvað sem hefur þurft að leysa vegna þess að vandamál hafa komið upp. Við erum með mörg dæmi um slíkt í þessum fjáraukalögum sem er hið besta mál.

Mig langar samt að heyra frá hv. þingmanni, ef hann les aðeins yfir fjáraukalögin og tillögur meiri hlutans, hvort hann líti svo á að fylgt sé þeirri meginreglu að þarna séu aðallega ófyrirséð útgjöld. Hann hefur sjálfur komið inn á sum af þessum atriðum, en mér sýnist nánast minni hlutinn af þeim atriðum sem eru í fjáraukalögunum vera ófyrirséð útgjöld og langar því að heyra athugasemdir hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar á þessu atriði.

Mér fannst fróðlegt þegar hv. þingmanni velti því upp, eins og hefur komið fram í umræðu áður, að menn skoðuðu áhrif ákveðinna ákvarðana eins og með fjarskiptasjóð á byggðaþróun, hvaða áhrif þær hefðu á byggðarlögin. Nú er búið að flytja tillögu til þingsályktunar um að vinna áætlun um hvernig megi bæta háhraðatengingar einmitt í dreifbýli. Mig langar til að hv. þingmaður eyði svolítið meiri tíma í að skýra sjónarmið sín hvað það varðar.

Í síðasta lagi eru hér aðeins fjórar tillögur frá minni hluta hv. fjárlaganefndar. Lítur hv. þingmaður ekki svo á að allt sem er á þeim lista sé ófyrirséð og hafi raunverulega verið atriði sem þurfti að bregðast við, þ.e. fjarskiptasjóður, Landspítalinn vegna sýkinga, heilbrigðisstofnanir vegna húsaleigu og desemberuppbót til (Forseti hringir.) atvinnulausra, og allir höfðu búist við að yrðu inni á þessu ári (Forseti hringir.) eins og undanfarin þrjú, fjögur ár?