143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:12]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Fyrst varðandi það sem ætlunin er að gera með fjáraukalögum. Þeim er sem sagt fyrst og fremst ætlað að bregðast við ófyrirsjáanlegum útgjöldum enda eiga allar fyrirsjáanlegar ráðstafanir að koma fram í fjárlögum.

Ég segi það hiklaust að mér sýnist við yfirferð á fjáraukalagatillögunum að þar sé mjög margt sem varla getur talist ófyrirséð. Gerð er ágæt grein fyrir nokkrum dæmum þar að lútandi í nefndaráliti minni hlutans, m.a. fjárveitingu til embættis forseta Íslands þar sem fjallað er um endurnýjun á bílakosti og tölvubúnaði, opinberrar heimsóknir forsetans, smíði á fálkaorðum og annað slíkt. Nú kunna öll þessi verkefni í sjálfu sér að vera þörf, en það verður seint sagt að þau séu ófyrirséð og þess vegna þurfi að gera sérstaklega ráð fyrir framlögum í fjáraukalögum til þeirra.

Sama má segja um framlag vegna aukins kostnaðar við fjölgun ráðherra og aðstoðarmanna. Það má kannski segja að það hafi verið ófyrirséð, herra forseti, að ný ríkisstjórn mundi bæði fjölga ráðherrum og aðstoðarmönnum hressilega. Það hefði samt sem áður verið eðlilegra að ríkisstjórnin hefði beðið með þá ráðstöfun þar til á nýju ári og fengi þá til þess fjárheimild á fjárlögum. Fleiri verkefni eru talin upp í þessu efni.

Varðandi þær tillögur sem minni hlutinn kemur með, nú er tími minn að vísu alveg á þrotum, ég get kannski komið aðeins ítarlegar inn á það í seinna andsvari, en mér sýnist þær vera þess eðlis að falla undir þá skilgreiningu að vera ófyrirséð útgjöld. Ég áskil mér rétt til þess að koma betur inn á það (Forseti hringir.) í seinna andsvari.