143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:18]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013. Venju samkvæmt er það rætt hér og farið í gegnum það hvernig til hefur tekist við fjárlög þessa árs en rétt er að hafa í huga í byrjun að með setningu laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og í greinargerð með því frumvarpi markaði Alþingi skýra stefnu um hlutverk og efni fjáraukalaga. Í því felst að gert er ráð fyrir að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir komi fram í fjárlögum en að í fjáraukalögum innan fjárhagsársins verði leitað eftir heimildum fyrir þeim fjárráðstöfunum sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga.

Samkvæmt fjárreiðulögunum er slíkum fjárráðstöfunum í fjáraukalögum fyrst og fremst ætlað að taka til óhjákvæmilegra málefna, einkum til ófyrirséðra atvika, áhrifa nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar á árinu. Það var sannarlega gert. Nokkur ný lög voru samþykkt sem höfðu fjárútlát í för með sér sem tekið er á hér. Nefni ég í því sambandi ívilnunarlög vegna framkvæmda við Bakka á Húsavík.

Lögin voru ekki hugsuð til áforma um ný verkefni, aukið umfang starfsemi eða til rekstrarhalla einstakra ríkisstofnana umfram settan útgjaldaramma enda er mælt fyrir um það í lögunum að vísa beri slíkum tillögum um breytingar á fjárheimildum til umfjöllunar um fjárlög fyrir næsta fjárhagsár.

Þetta er það sem gert hefur verið hingað til og fjárreiðulögin segja til um. Hér er fjallað um nokkra þætti sem menn geta svo deilt um hvort voru óhjákvæmileg málefni, ófyrirséð atvik eða ný löggjöf. Hér er gert ráð fyrir því sem ég get ekki ímyndað mér annað en að allir hafi verið sammála um, jafnlaunaátakið sem fjallað er um oft og tíðum. Það var nauðsynlegur þáttur til að rétta hlut í heilbrigðisgeiranum. Ætli það hafi ekki verið í apríl sem þáverandi ríkisstjórn samþykkti að ganga til þessa jafnlaunaátaks og semja við þær starfsstéttir í heilbrigðisgeiranum sem samið var við sem hefur töluverð fjárútlát í för með sér.

Aðalbreytingarnar á aðkomu ríkissjóðs eins og kemur fram í frumvarpinu sjálfu eru að frá áætlun fjárlaga stafa þær aðallega, með leyfi forseta, „af því að tekjur ríkissjóðs eru umtalsvert lægri en áætlað var í fjárlögum vegna minni hagvaxtar en vænst var,“ eins og nánar er svo gert ráð fyrir í fjáraukalagafrumvarpinu sjálfu. Það er ansi athyglisvert að fara yfir þetta. Ef maður fer yfir þetta hlutlaust án þess að kenna einhverjum um gekk bara ekki eftir hagvöxturinn fyrir þetta ár sem spáð var þegar við vorum að búa til fjárlög. Það eru ýmsar ástæður fyrir því þó að á þriðja ársfjórðungi þessa árs hafi komið fram miklar og góðar vísbendingar um aukinn hagvöxt sem sennilega er að langmestu leyti drifinn af ferðaþjónustunni. Mér finnst endilega að ég hafi séð þær tölur að ef ferðaþjónustan er tekin út úr hagvaxtarspám standi eftir 0,5–0,7% sem er þá annað. Það er allt of lítið og þess vegna eru það vonbrigði að ekki hafi orðið af ýmsum framkvæmdaverkum sem hafa staðið til og menn hafa vonað að færu í gang. Þau hefðu gefið þá innspýtingu í hagkerfið eins og menn vonuðust eftir og nefni ég í því sambandi framkvæmdir við Bakka á Húsavík, uppbyggingu kísilversins þar. Á vegum síðustu ríkisstjórnar voru lögð fram frumvörp vegna framkvæmdanna þar. Það var sennilega dálítið nýtt að ríkissjóður væri búinn að ganga frá sínum hlutum, skrifa undir samning með fyrirvara um að af framkvæmdum yrði sem er enn ekki orðið vegna þess að ákveðnir hlutir hafa ekki gengið eftir eins og menn hafa talað um. Eins er ESA enn þá að fara yfir þennan ívilnunar- og fjárfestingarsamning en vonandi verður því lokið sem allra fyrst. Þetta voru ekki fyrirséð útgjöld þegar við vorum að vinna fyrir ári síðan að gerð fjárlaga fyrir þetta ár.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan hefur efnahagsbatinn verið hægari en áætlað var þegar fjárlög voru gerð sem hefur í för með sér að tekjur ríkissjóðs vaxa hægar. Áhrif breyttrar þjóðhagsspár má ráða af því að þótt horfur séu á að tekjur verði minni en áætlað var verða þær nánast óbreyttar sem hlutfall af landsframleiðslu. Þetta er vert að hafa í huga. Samanlagt var reiknað með í frumvarpinu að veikari efnahagsforsendur lækkuðu tekjuáætlun ársins um 11,6 milljarða kr. Síðan blandast auðvitað inn í það fyrstu verk nýrrar ríkisstjórnar á sumarþingi, þ.e. að minnka tekjur af sérstöku veiðigjaldi um 3,2 milljarða kr. Ég hef áður gagnrýnt þá lækkun þótt ég segi svo alltaf í sömu andrá að það hafi mátt breyta ýmsu innan veiðigjaldalaganna til að setja það sanngjarnara niður, en það þurfti ekki endilega að henda frá sér þessum tekjum á sennilega mesta og besta afkomuári sjávarútvegs sem um getur. Gallinn var auðvitað sá að við vorum að leggja á frá gömlum grunni og það hafði líka áhrif á þetta. Það væri betra ef sú leið hefði verið farin sem ég var mjög hlynntur og talaði fyrir, að gera þetta ársfjórðungslega á hverju ári eftir því hvernig ástand er. Þá reiknast upp ef verð á afurðum hækkar, og lækkar þá um leið ef það lækkar.

Síðan kastaði ríkisstjórnin frá sér um 500 millj. kr. vegna virðisaukaskatts á hótel- og gistináttaþjónustu. Um það höfum við mikið rætt hér líka núna og síðan voru áform í fjárlögum um 4 milljarða kr. tekjur af söluhagnaði af eignasölu sem hafa því miður ekki gengið eftir. Arðgreiðslurnar sem áttu að vera 1,2 milljarðar skiluðu sér ekki og að lokum lækka markaðir tekjustofnar tekjuhliðina um 2 milljarða kr. Þetta var eins og þetta var lagt fram í frumvarpinu sjálfu.

Það má líka segja að það getur verið frekar erfitt að áætla útgjaldaskuldbindingarnar sem eiga að stærstum hluta rætur að rekja til áhrifa á endurmati og ýmsum kerfislægum útgjaldaþáttum, svo sem útstreymi sjúkratrygginga og bótakerfa. Við sjáum auðvitað og höfum séð oft að þarna hafa tölur breyst töluvert frá samþykktum fjárlögum til lokaniðurstöðu ársins sem hefur þá þurft að rétta af í fjáraukalögum.

Síðan hafa forsendur um vaxtakostnað ríkisins breyst og síðast en ekki síst um fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs sem ég ætla að koma betur að á eftir.

Það segir á einum stað í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Gangi þessi niðurstaða eftir verður frávikið á útgjaldahliðinni frá fjárlögum með minnsta móti og er það til marks um þá aðhaldssemi sem beitt var við undirbúning frumvarpsins.“

Þetta er dálítið merkilegt vegna þess að það má segja að okkur hafi takist hin síðari ár, þrátt fyrir hið mikla efnahagshrun og þrátt fyrir mikla verðbólgu, að gera fjárlögin þannig að þau hafi staðist miklu betur en áður var, réttar sagt eru breytingar sem þarf að gera miklu minni. Stærstu einstöku útgjaldaliðirnir til hækkunar eru þessi áform um 4,5 milljarða kr. til Íbúðalánasjóðs vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sjóðsins. Kannski sér ekki fyrir endann á því enda er talað um að meira gæti þurft til.

Annar þáttur sem ég nefndi áðan sem veldur hvað mestum útgjöldum umfram fjárlög er endurmat á útgjöldum til sjúkratrygginga sem nemur um 1,4 milljörðum kr. Þar vegur þyngst aukinn kostnaður við sérfræðilækningar og útgjaldavöxtur vegna S-merktra lyfja, eins og segir í frumvarpinu. Hvernig á að áætla betur fyrir sérfræðilækningum? Það getur verið að það hafi bara saxast vel á biðlista og annað og allt hafi verið á fullri ferð. Þá þýðir það meiri fjárútlát það árið. Síðan getur eitthvað gerst á næsta ári sem gerir það að verkum að biðlistar hlaðast upp og þá er kostnaðurinn kannski minni.

Síðast en ekki síst er jafnlaunaátakið sem ég gerði að umtalsefni áðan þar sem tekin var ákvörðun af hálfu síðustu ríkisstjórnar snemma á þessu ári um að ganga frá því verki sem ég hika ekki við að halda fram að hafi verið gert með miklum myndarbrag. Það er verkefni sem ég held að allir séu stoltir af vegna þess að sannarlega þurfti að lagfæra laun í heilbrigðisstéttum eins og gert var með jafnlaunaátakinu. Það ber að þakka fyrir að samningar tókust. Maður þekkir auðvitað að starfsfólk heilbrigðisstofnana sem þetta átti mest við gerði sér vonir um meira og þurfti meira í raun til að bera sig saman við ýmislegt annað sem gert er í þjóðfélaginu, ég tala nú ekki um laun í öðrum löndum. En þetta voru samningar beggja aðila. Fyrir það ber að þakka og það þarf auðvitað að taka á því í fjáraukalögum eins og gert er.

Síðan hefur verið talað um útgjöld vegna almannatrygginga sem hafa aukist um 1,2 milljarða og lífeyrisskuldbindingar, eins og hér er talað um, upp á 750 millj. kr. meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum vegna áhrifa kjarasamninga og launaþróunar á eftirlaunarétt lífeyrisþega. Allt eru þetta hlutir sem maður getur alveg skrifað upp á. Þetta er í takt við efni fjáraukalaga, þ.e. ófyrirséð atvik, óhjákvæmileg málefni eins og hér er fjallað um. Þetta eru kannski stærstu liðirnir sem við erum að ræða í þessum fjáraukalögum.

Ég nefndi áðan stærstu töluna til lækkunar, 7,5 milljarða kr. lækkun vaxtagjalda, en hana má að stærstum hluta rekja til þess að breytingar á skuldabréfi Seðlabanka Íslands sem voru áformaðar í fjárlögum á þessu ári gengu ekki eftir. Hugmyndin var að breyta skuldabréfinu úr verðtryggðu í óverðtryggt bréf og að vaxtagjöld mundu aukast við það að verðbótaþáttur færðist með nafnvöxtum um rekstrarreikning ríkisins í stað þess að færast sem endurmat í efnahagsreikningi. Þetta er texti sem getur auðvitað átt við um fjölda fyrirtækja og einstaklinga en vegna þess að skuldabréfinu var ekki breytt myndast svigrúm í fjáraukalögum til að lækka vaxtakostnað ríkissjóðs um 7,5 milljarða kr. miðað við fjárlög. Það er ansi athyglisvert.

Virðulegi forseti. Síðan er það sem kemur að vinnu fjárlaganefndar við fjárreiðulögin. Meiri hlutinn talar um að frumvarpið hafi komið til umfjöllunar 28. nóvember en í minnihlutaálitinu segir 26. nóvember. Látum það liggja á milli hluta. Síðan fjallar minni hlutinn um að breytingartillögur meiri hlutans hafi ekki verið kynntar í nefndinni fyrr en 6. desember og í dag er 10. desember. Það verður að segjast alveg eins og er að það eru vonbrigði hvað þetta kemur seint fram vegna þess að með breytingu á þingsköpum um að Alþingi kæmi fyrr saman að hausti, annan þriðjudag í september eins og það heitir, áttum við að koma saman núna 10. september en ríkisstjórn óskaði eftir því að lögum yrði breytt til bráðabirgða fyrir þetta ár til að Alþingi þyrfti ekki að koma saman fyrr en 1. október. Ástæðan sem ríkisstjórnin færði fram var að hún þyrfti meiri tíma til að vinna fjárlagafrumvarp, fjáraukalagafrumvarp og tekjustofnafrumvarp sem þyrfti að koma fram með.

Breytingin á þingsköpum var mjög góð og þá mun það gerast í fyrsta skipti næsta vor að ríkisstjórn þarf að leggja fram í þingsályktunartillögu allar helstu útlínur fyrir fjárlög þarnæsta árs. Þetta er merkileg breyting og var hugsuð til þess að fjárlaganefnd og þingið hefðu meiri tíma til að vinna þessi frumvörp og vinna í þeim á faglegan og góðan hátt, eins og hefur verið gert, og hafa til þess lengri tíma. Þess vegna eru það mikil vonbrigði að þetta frumvarp hafi ekki komið fram fyrr en 26. nóvember, breytingartillögurnar kynntar 6. desember og núna erum við, 10. desember, að fjalla um þessar tillögur. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð og þau eru ekki í takt við það sem allir samþykktu við breytingu þingskapa á sínum tíma sem átti að vera til þess að gera vinnuna lengri, markvissari og betri. Við þurfum á því að halda að frumvörp sem sett eru fram sem verða að fjárlögum standist betur það sem þarf að gera á því ári sem er sett fyrir. Fjárlög þurfa því sem næst að standast og það á ekki að þurfa að gera miklar breytingar á þeim. Það er liður í góðri efnahagsstjórn sem okkur Íslendingum veitir nú ekki af að fá meiri stöðugleika í.

Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar kemur fram að í breytingartillögum við frumvarpið nemi þær samtals 1.907 millj. kr. til lækkunar gjalda sem getið er í tillögum hennar og 3.908 millj. kr. til hækkunar tekna á rekstrargrunni. Þetta var ekki í frumvarpinu. Á einum stað í því, ef ég finn það hér — það er kannski dæmi um hvernig málið var unnið og hvað þetta kom seint fram að eins og frumvarpið liggur fyrir okkur er talað um að þótt það hafi komið svona seint fram verði þessum þáttum breytt í október þegar nákvæmari hagvaxtarspár liggi fyrir þá. Með öðrum orðum gleymdist að breyta þessum texta í fjáraukalagafrumvarpinu sem segir margt um flýtinn sem var á því og hvað þetta einhverra hluta vegna var unnið seint eins og ég gagnrýni hér og fjalla um.

Það er sem sagt talað um að innheimta tekna skili 5,3 milljörðum hærri tekjum en gert var ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu sem, eins og ég sagði, kom fram 26. nóvember. Breytingartillögum var dreift 6. desember en við þessa vinnu höfðu tekjur aukist um 5,3 milljarða kr. og meginskýringin, eins og segir í nefndaráliti meiri hlutans, liggur í heldur betri innheimtu á seinni hluta ársins. Þannig hækkar tekjuáætlun vegna fjármagnstekjuskatts, virðisaukaskatts og tekjuskatts lögaðila samtals um 5,9 milljarða kr. Á móti vegur lægri innheimta vörugjalda og lækkun vaxtatekna ríkissjóðs. Á heildina litið er í breytingartillögum nefndarinnar gert ráð fyrir um 5,8 milljörðum kr. hagstæðari heildarjöfnuði en gert er ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu. (Gripið fram í.)

Það er akkúrat málið og ég held að þegar upp verður staðið og við fáum ríkisreikning fyrir árið 2013 verði margt fleira komið þarna inn sem mun breyta þessu dæmi sem gerir það þá að verkum að fjárlög síðustu ríkisstjórnar sem voru samþykkt fyrir þetta ár munu standast enn betur en hér er fjallað um. Það er bara hið besta mál en ég er sannfærður um að seinni hluta ársins koma fram betri tölur sem breyta þessu en einhverra hluta vegna virðist núverandi hæstv. ríkisstjórn lifa helst á því að koma fram með sem dekksta tölu til að kenna (Forseti hringir.) fyrrverandi ríkisstjórn um.