143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég hjó sérstaklega eftir því sem hv. þingmaður ræddi um öguð vinnubrögð og ófyrirsjáanleika þess sem á að taka á í fjáraukalagafrumvarpi.

Það sem stakk mig og vekur athygli mína í þessu máli og mig langaði að ræða sérstaklega við hv. þingmann er í fyrsta lagi það að minni hlutinn gerir tillögu um að bæta Landspítalanum með sérstakri fjárveitingu þá stöðu sem þar kom upp í upphafi árs þegar voru mjög tíðir faraldrar, tvöfalt fleiri dagar sem hafa þurfti sjúklinga í einangrun en í meðalári og veikindi hjá starfsfólki og veikindaforföll voru 30% tíðari en í ársmeðaltali 2012. Þetta hefði ég haldið að væru dæmigerðar ófyrirsjáanlegar kringumstæður. Af einhverjum orsökum er sú fjárveiting sem samþykkt var í fyrri ríkisstjórn, sem sneri að því að koma til móts við þennan kostnað, ekki tekin upp í fjáraukalagafrumvarpi.

Mig langaði að inna hv. þingmann, sem hefur mikla þingreynslu, eftir því hver hefðin hefur verið í slíkum málum, því að þetta er dæmi um mál sem á miklu fremur heima að mínu viti í fjáraukalagafrumvarpi en sumt af því sem hér má finna. Til að mynda er rætt hér um endurnýjun á bílakosti hjá embætti forseta Íslands og fleiri slíka hluti sem ætla mætti að gera mætti áætlanir um og ætti að falla undir fyrirsjáanleg útgjöld.

Nú man ég vel að mikil umræða var um þetta hjá fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili, þ.e. að við ættum að standa við þau sjónarmið að í fjáraukalagafrumvarpi og í fjáraukalögum væri verið að takast á við ófyrirsjáanleg atvik. Mig langar að inna hv. þingmann eftir mati hans á þeim dæmum sem ég nefni hér.