143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:41]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að minnast á þennan þátt vegna þess að ég komst ekki í það í minni ræðu, en geri það kannski síðar.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst þetta vera alveg ótrúleg vinnubrögð hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn, sem tekur við á miðju ári — það voru kosningar, þær fóru eins og þær fóru, það var skipt um ríkisstjórn — að taka út þennan lið, 125 millj. kr. vegna Landspítala. Í ágætisnefndaráliti minni hlutans er fjallað um þetta, um starfsemi spítalans í upphafi árs sem fór töluvert fram úr áætlun vegna inflúensu, nórósýkingar, RSV-sýkingar o.s.frv.

Fyrrverandi hæstv. ríkisstjórn samþykkti þetta á sínum starfstíma sem var fulllöglegur auðvitað alveg eins og starfstími núverandi ríkisstjórnar er. En það er ótrúleg óskammfeilni að taka þennan lið og setja hann ekki inn í fjáraukalög. Þetta er akkúrat liður sem ég gat um áðan sem fellur undir efni fjáraukalaga.

Það má líka segja að það sé efni fjáraukalaga að þurfa að bæta við peningum vegna svo mikillar fjölgunar aðstoðarmanna ráðherra. Við gátum auðvitað ekki, fyrri ríkisstjórn, þegar við gerðum fjárlög fyrir þetta ár, áætlað að nýir ráðherrar þyrftu svona svakalega marga aðstoðarmenn og það þyrfti að bæta við um 100 millj. kr. vegna þess. En ekki stóð á því að setja það inn núna og sleppa Landspítalanum.

Mér finnst kveða hér við algjörlega nýjan tón. Ég verð að segja alveg eins og er að ég minnist þess ekki að svona hafi verið komið fram varðandi ákvarðanir fyrrverandi ríkisstjórnar á kosningaári þegar skipt hefur verið um ríkisstjórn. En þetta er kannski eitt af þeim dæmum sem maður á kannski ekki að láta sér koma á óvart í störfum þessarar ríkisstjórnar. Við sáum það í dag hvernig barnabæturnar duttu niður og það var bara hið besta mál (Forseti hringir.) en þetta er mjög óvenjulegt.