143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller þessi svör. Mér finnst það mjög áhugavert sem hann bendir á að það sé í raun nýlunda í störfum framkvæmdarvaldsins að ganga fram hjá ákvörðunum fyrri ríkisstjórnar þegar kemur að fjáraukalögum. Þessu hefur minni hlutinn gert ráð fyrir í sínum tillögum og það er auðvitað gott og kæmi mér í raun og veru á óvart, þegar við skoðum hvernig þetta mál er vaxið, ef meiri hlutinn kýs að fella þá tillögu. Það er eitthvað sem við eigum eftir að komast að þegar greidd verða atkvæði um þetta.

Ég er sammála hv. þingmanni um mat hans á því að það hljóti að vera eðlileg vinnubrögð, að við gerum að sjálfsögðu þá kröfu að ríkisstjórnir á kosningavetri fari ekki hamförum í því að ákveða ný útgjöld. En við hljótum líka að gera þá kröfu að þær ákvarðanir séu gildar, þó að þær séu teknar sex mánuðum fyrir kosningar, því að annað hlýtur að skapa gríðarlega óvissu.

Við getum hins vegar rætt það sem hv. þingmaður nefndi í svari sínu um fjölgun aðstoðarmanna. Þar er gert ráð fyrir 97 millj. kr. framlagi vegna aukins kostnaðar við fjölgun ráðherra, sem var ófyrirséð, og fjölgun aðstoðarmanna, sem var kannski að einhverju leyti fyrirsjánleg vegna þeirra lagabreytinga sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili.

Það sem við þurfum auðvitað að velta fyrir okkur ef við eigum að vanda hér vinnubrögð og mig langar að spyrja hv. þingmann um: Hvernig getum við gert ráð fyrir hugsanlega auknum útgjöldum þegar kemur að kosningaári? Væntanlega getur fjöldi ráðherra farið upp og niður við ríkisstjórnarskipti, fjöldi aðstoðarmanna þar með farið upp og niður, ég tala nú ekki um ef sá háttur verður svo tekinn upp að hafa líka launalausa aðstoðarmenn í auknum mæli eins og hér hefur verið gert. Augljóslega verða alltaf einhverjar breytingar sem þarf að vera hægt að bregðast við. Finnst hv. þingmanni eðlilegt að það sé þá gert í fjáraukalögunum með þessum hætti eða er eðlilegra að sérstakir liðir séu settir á, ófyrirséðir liðir vegna ríkisstjórnarskipta eða eitthvað slíkt, þannig að þar sé hægt að fara upp og niður?